138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:07]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir ágæta og skemmtilega ræðu og vona að hann finni það í hjarta sínu að fyrirgefa mér óvenju strákslegt frammíkall um að þingmenn séu ekki bara frá flokkum og hreyfingum heldur hugsanlega líka frá fyrirtækjum, en það dettur náttúrlega engum heilvita manni í hug að sé meint í alvöru.

Mig langaði að spyrja, af því að hv. þingmaður talaði mjög skynsamlega og áheyrilega um þær pólitísku skotgrafir sem öllum eru ljósar sem fylgjast með störfum þingsins, tveggja spurninga: Telur hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, að það sé orðið meira en tímabært að breyta, endurskrifa eða skrifa upp á nýtt stjórnarskrá fyrir íslenska lýðveldið? Í annan stað: Telur hv. þingmaður að það sé raunhæfur möguleiki á því að stjórnmálaflokkarnir á þinginu geti yfirgefið skotgrafirnar og sameinast um að semja stjórnarskrá sem ekki inniheldur einhver hagsmunamál flokkanna heldur þau grunngildi sem þjóðin getur verið sammála um að hún vilji lifa við næstu ár eða vonandi áratugi svo að maður sé nú bjartsýnn? Telur hv. þingmaður að þetta sé mögulegt og framkvæmanlegt? Og þá í þriðja lagi, ef svarið er já: Hvað gæti það tekið langan tíma? Mundi það geta gerst á minni ævi?