138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[21:11]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta svar sem mér fannst greinargott og féll mér vel í geð.

Í ræðu sinni áðan rakti hv. þingmaður dæmi um mismunandi afstöðu til stjórnarskrárinnar eftir því hvort menn sátu í ríkisstjórn eða ekki varðandi málskotsrétt forsetans eða rétt hans til að vísa til þjóðaratkvæðagreiðslu. Auðvitað eru menn mismunandi glaðir og mismunandi stemmdir eftir því hvort þeir eru við völd eða ekki, en stjórnarskráin er eitthvað sem blífur og lifir vonandi margar ríkisstjórnir. En í ljósi fenginnar reynslu af stjórnarskrárvinnu, hvernig telur hv. þm. Bjarni Benediktsson (Forseti hringir.) að við eigum að bera okkur að til þess að eignast nýja stjórnarskrá og betri fljótt?