138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:16]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði hlakkað til að heyra ræðu hv. þm. Birgittu Jónsdóttur þar sem hún var mjög virk í þeirri miklu umræðu sem fór fram stuttu eftir hrunið, sérstaklega í ársbyrjun 2009. Hún sagði að hún hefði unnið með fólki sem dreymdi um að móta sáttmála þjóðarinnar og ég hafði hlakkað til að heyra um það.

Svo segir hv. þingmaður og kannski með réttu að það þurfi að breiða stjórnarskrá Íslands út til þjóðarinnar og byrja að lesa úr henni. Þá fór eiginlega það sem ég ætlaði að spyrja um því ég ætlaði einmitt að fá sjónarmið hv. þingmanns á því hvernig eigi að velja á svona stjórnlagaþing eða þing eða umræðuhóp. Ég hef talað við fjölmarga af þeim sem voru í þessari virkni hér úti á Austurvelli og víðar og það var mjög áhugavert. En alltaf þegar kom að því hvernig ætti að velja vildi viðkomandi láta velja sjálfan sig. Það getur vel verið að við getum haft hér 300 þúsund manna samkundu, það er ekki útilokað, það er nefnilega ekki útilokað að hafa 300 þúsund manns á netinu, en ég er dálítið hræddur um að niðurstaðan yrði dálítið sundurlaus, út og suður, vegna þess að flestir þeir sem ég hef talað við hafa mjög mismunandi skoðanir á því hvernig þessi ágæti sáttmáli á að líta út.

Þess vegna sakna ég þess, mér finnst eiginlega sorglegt að hafa hlýtt á ræðu hv. þingmanns og fá eiginlega enga umfjöllun um þessi atriði.