138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:41]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér upp í stutt andsvar vegna þess að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir gerði athugasemd við það orðalag mitt þegar ég lýsti því að mín upplifun af framgangi þessa máls væri sú að tæpur og sundraður meiri hluti væri að vaða yfir minni hluta á skítugum skónum. Þetta orðalag virðist særa blygðunarkennd þingmannsins.

Ég get bara ekki beðist afsökunar á þessu orðalagi vegna þess að eftir 40 ár í orðabransanum er þetta alkurteisasta orðalag sem ég get fundið yfir það sem hér er í gangi.