138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:47]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Hún svaraði spurningu sem ég beindi til hennar áðan, þ.e. að þeir einstaklingar sem kosnir yrðu á stjórnlagaþing mundu að sjálfsögðu þurfa að ná sér í ráðgjöf ef á þyrfti að halda. Ég sé í fljótu bragði ekki muninn á því eða hvort um er að ræða ráðgefandi nefnd sem býr yfir þekkingu sem hugsanlega komist að niðurstöðu og kynni hana á þjóðfundum eða íbúaþingum og þar fram eftir götunum til að afla hugmyndum fylgis og til að ná til hins almenna borgara eins og hv. þingmaður segir.

Af því að þessi tala kemur upp í hugann, 25–30 einstaklingar, þá er það sama tala og kom hingað inn af nýjum þingmönnum fyrir einu ári þannig að ég hræðist það dálítið. Hv. þm. Þráinn Bertelsson hefur bent á að þetta gæti orðið einhver botnlangi, eins og hann orðaði það, af því sem er að gerast inni á þessari samkomu en ég ætla ekkert að fullyrða um það.