138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[22:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýddi á ræðu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur með athygli og líka það þegar hún fór í gegnum hugmynd um vélrænt úrtak úr þjóðskrá sem hugsanlegan möguleika eða einn lista sem annan möguleika og taldi að sú niðurstaða sem meiri hluti allsherjarnefndar komst að sé besta lausnin. Þá vil ég spyrja hv. þingmann: Segjum að það verði sæmilegur áhugi á þessu, svo sem eins og 3.000 manns sem bjóði sig fram, og mér þætti ekkert ólíklegt að það yrði, er ekki hættan sú að sá sem af tilviljun yrði valinn efstur á lista nyti forgangs umfram aðra?

Síðan er það spurningin um stjórnmálaflokkana. Segjum að einhver stjórnmálaflokkur, ég veit ekki hvað ég á að kalla hann, leggi áherslu á að kjósendur kjósi alveg endilega ákveðna þrjá menn og setji jafnvel í það dálítið fé, auglýsingar og kynningu í sínu flokksapparati. Er það ekki það sem mun gerast, að það myndist einhvers konar flokkar inni á þessum óraðaða lista þannig að þarna verði kosið í bland eftir listum þar sem flokkarnir, hver um sig, leggja áherslu á ákveðin nöfn? Svo kemur hinn dreifði fjöldi sem hefði áhuga á þessu og verður undir vegna þess að flokkarnir eru það skipulag sem er þekktast í þjóðfélaginu og hafa kannski mest vald og afl til að auglýsa menn upp.

Svo er það þetta samráð við þjóðina. Ég vil bara spyrja hv. þingmann: Hvenær hitti hún þjóðina? Ég hitti alltaf einstaklinga. Ég hitti enga þjóð, ég hitti alltaf einstaklinga sem mynda þjóð.