138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:23]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir hennar ræðu sem var ágæt, einkum þegar hún lýsti ættfræði þeirra tillagna sem komnar eru í nýjum og breyttum búningi í formi ráðgefandi stjórnlagaþings. Ég hef ekki athugasemdir við aðra þætti ræðu hennar. Þá sem líta má á sem pólitískan skylmingaleik ætla ég ekki að fjalla um enda hefur umræðan í kvöld verið að mestu leyti málefnaleg og ástæðulaust að breyta því.

Það er eitt atriði sem vakti mig til umhugsunar þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hélt sína ræðu. Hún álítur og kannski með réttu, ég ætla ekki að dæma um það þar sem ég stend í ræðustólnum, að þeim stjórnmálaflokkum sem eiga fulltrúa á Alþingi Íslendinga hafi oft og tíðum gengið illa að ná saman um breytingar á stjórnarskrá. Því spyr ég hv. þm. Siv Friðleifsdóttur: Telur hún líklegra að einstaklingar sem koma hver úr sinni áttinni með mismunandi sýn á stjórnskipunarmál, pólitík almennt og mismunandi lífsskoðanir, nái einhverri sameiginlegri niðurstöðu? Er ekki eðli málsins samkvæmt oft og tíðum skiptar skoðanir um þessi mál? Munum við ekki standa frammi fyrir sömu vandamálum að ná samstöðu um breytingar á stjórnlagaþingi og við eigum oft hér á Alþingi vegna þess einfaldlega að það er mismunandi sýn á hlutina? Er ekki fullmikil bjartsýni að ætla það að einstaklingar, sem eru kosnir án þess að vera í framboði fyrir flokka, eigi (Forseti hringir.) eitthvað auðveldara með að ná samkomulagi en við sem erum kosin af flokkslistum?