138. löggjafarþing — 133. fundur,  8. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[23:34]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gamansemi er farin að verða dálítið áberandi í íslenskum stjórnmálum eins og menn vita og það hlýtur að hafa verið gamansamur tónn hjá hv. þingmanni þegar hún talaði um að Sjálfstæðisflokkurinn væri valdasækinn — af því að Framsóknarflokkurinn hefur náttúrlega aldrei verið valdasækinn. Það vitum við. Framsóknarflokkurinn hefur að vísu samið á báða bóga, til vinstri og hægri, (Gripið fram í: Opinn í báða …) og látið fallerast á báða vegu eins og allir vita, en Framsóknarflokkurinn hefur náttúrlega aldrei verið valdasækinn, það vitum við sem þekkjum aðeins til íslenskrar stjórnmálasögu. Þeir hafa þvert á móti verið afar hæverskir þegar kemur að því að sækjast eftir valdastólunum í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi var ræða hv. þingmanns pólitísk ímyndunarveiki um að Sjálfstæðisflokkurinn hefði alltaf verið á móti því að endurskoða stjórnarskrána þegar það blasir hins vegar við að Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft um það forustu að endurskoða stjórnarskrána og náð miklum árangri, t.d. á mannréttindasviðinu eins og hérna var verið að tala um. Hv. þingmaður kallaði endurskoðun á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar minni háttar mál. Við þurfum að vanda okkur við þessa endurskoðun, hv. þingmaður var að fimbulfamba um einhver ákvæði sem lutu að fiskimiðunum þegar ég benti á (Forseti hringir.) að allir aðrir en hún eru þeirrar skoðunar að ákvæði sem lýtur að auðlindunum eigi að vera almennt ákvæði sem lýtur að auðlindum í landinu, (Forseti hringir.) ekki bara til hafsins heldur líka til landsins.