138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hugmyndir um sparnað í ríkisrekstri.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Mig langar til að bera upp fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af grein sem hæstv. félagsmálaráðherra skrifaði í Fréttablaðið þar sem til umfjöllunar voru leiðir til að standa að niðurskurði. Við vitum það öll sem hér erum að þar bíður okkar mjög erfitt verkefni og mjög krefjandi. Ég tel því mjög mikilvægt að við eigum hér mjög hreinskiptnar umræður um hvaða leiðir hægt er að fara. Hugmyndir okkar hafa gengið út á það að nota eigi mismunandi aðferðafræði eftir því hvaða málaflokkar væru undir, t.d. um 10% í öðrum ráðuneytum en í velferðarráðuneytunum, og mér heyrist að ríkisstjórnin sé að vinna á þeim forsendum. En í mínum flokki höfum við annars vegar haft áhyggjur af frekari hugmyndum til skattahækkana og hins vegar ógegnsæi varðandi niðurskurðinn.

Nú birtast hugmyndir frá hæstv. félagsmálaráðherra um að fara þá leið að frysta laun opinberra starfsmanna í nokkur ár. Hann telur að það geti verið til þess fallið að bjarga störfum í opinbera geiranum. Því hefur verið mætt af mikilli hörku af hagsmunaaðilum og hefur reyndar verið tekið heldur fálega af hæstv. fjármálaráðherra og jafnvel öðrum í ríkisstjórninni.

Ég vil því inna hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvaða aðrar hugmyndir eru uppi á borðum. Eru menn að velta því fyrir sér að setjast niður með heildarsamtökum opinberra starfsmanna og ræða leiðir til að bjarga störfum, leiðir af þessum toga? Er t.d. verið að velta því fyrir sér að lækka starfshlutföll til að verja störf eða sjá menn fram á að niðurskurðurinn muni óhjákvæmilega þýða fækkun starfa í opinbera geiranum? Ég hef heyrt tölur um að ætli menn sér að ná þeim sparnaði sem við horfum á, um það bil 40–50 milljörðum, geti það þýtt allt að 8 þúsund störf í opinbera geiranum, þ.e. fækkun starfa um allt að 8 þúsund. Þetta er stærð vandans. Við þurfum að ræða hann opinskátt og af hreinskilni í þessum sal og ég inni hæstv. fjármálaráðherra eftir því hvaða aðrar hugmyndir eru uppi en sú sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur kunngert.