138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

hugmyndir um sparnað í ríkisrekstri.

[10:36]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil fyrst segja að ég tel að þær aðgerðir sem ráðist var í í fyrra, bæði á miðju ári 2009 og aftur um áramótin 2010, hafi gengið vonum framar, þær hafi gengið fyrir sig með minni sársauka og með meiri jákvæðri þátttöku forstöðumanna stofnana og starfsmanna en kannski var hægt að ætlast til. Og það sýnir mikinn vilja og mikinn dug allra til að takast á við þetta verkefni. Við höfum tölur í höndum sem vonandi verður hægt að gera opinberar innan skamms sem sýna að þessar aðgerðir skiluðu tilætluðum árangri og gott betur. Staðan er að því skapi betri sem við réðumst tímanlega í aðgerðir og drógum ekki að takast á við vandann.

Verkefnið núna er fyrst og fremst að setja saman rammann að fjárlögum fyrir árið 2011 og það er ærinn hausverkur. Menn þurfa í sjálfu sér ekki að gera sér það erfiðara en efni standa til með því að hafa þungar áhyggjur af árunum 2012 og 2013 í bili. Ég hef átt fundi með þeim aðilum sem kannski eiga mest undir í þessum efnum, svo sem forustumönnum sveitarfélaganna, Bændasamtökunum og Samtökum opinberra starfsmanna, á undanförnum dögum til að ræða við þá um þær útlínur sem við okkur blasa í þessum efnum. Ég hef síðan átt aftur fundi með sumum þessara aðila ásamt með fagráðherrum viðkomandi málaflokka til að fara yfir það hvernig þetta verkefni verður best af hendi leyst. Vissulega er ekki mikið svigrúm til almennra launahækkana, hvorki á hinum opinbera né á hinum almenna vinnumarkaði. Um það hygg ég að sé ekki mikill ágreiningur en ég hygg að ekki sé tímabært að velta fyrir sér hvernig með þau mál verður farið lengra inn í framtíðina. Ég tel að ekkert eigi að vera útilokað í þessum aðgerðum. Það á við um skipulagsbreytingar, sameiningu stofnana og ráðuneyta og annað sem getur með þeim hætti lagt okkur lið í þessu á komandi árum. Tal um að opinberum störfum muni fækka um allt að 8 þúsund er algerlega fráleitt og út í loftið sem sést best á því að á launaskrá hjá ríkinu eru milli 17 og 18 þúsund manns.