138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

markaðsátak í ferðaþjónustu.

[10:41]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það hefur ekki farið fram hjá neinum að í gangi er mikið markaðsátak til að auglýsa Ísland á erlendri grundu fyrir ferðamenn. Er ekki óhætt að segja að ákveðið myndband hafi farið eins og eldur í sinu um heiminn?

Í máli Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, hefur komið fram að þegar megi sjá ákveðin batamerki í ferðaþjónustunni og þetta sé farið að skila sér í auknum bókunum og fyrirspurnum. Við hljótum að fagna því mjög ef svo er og ekki síst ef við horfum til framtíðar því að eitt af því sem var áhyggjuefni varðandi ferðaþjónustuna var að þetta mundi ekki skila sér í bókanir fyrir næstu ár, ekki bara að þetta ár væri í hálfgerðri upplausn. Mig langar að inna hæstv. iðnaðarráðherra eftir því hvort hún hafi einnig skynjað á ferðum sínum — ég veit að hún hefur sinnt þessum málaflokki mikið undanfarið — batamerki í ferðaþjónustunni og hvort markaðsátakið sé farið að skila sér. Ég held að við getum í framhaldinu af þessu markaðsátaki dregið þann lærdóm af því hversu einfalt það er að hafa áhrif á þá sem hingað vilja koma, þ.e. á markaðinn, með réttum skilaboðum.

Ég hef áður í þessum ræðustól gert athugasemdir við það fjármagn sem sett hefur verið í markaðsstarf fyrir ferðaþjónustuna og nú sýnist mér að þeir miklu fjármunir sem settir voru í þetta, töluvert miklu fjármunir, 350 millj. kr. af hálfu ríkisins og annað eins af hálfu hagsmunaaðila, séu farnir að skila sér verulega. Segir það okkur ekki þá að mikilvægt sé að halda áfram á þessari braut? Mig langar með þessari fyrirspurn að fá álit ráðherra á þessu.