138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

markaðsátak í ferðaþjónustu.

[10:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það vill svo til að ég var einmitt að skoða tölur í morgun út af því að ég var í viðtali við hina alþjóðlegu fréttastöð Al Jazeera um þetta verkefni. En þetta verkefni hefur gengið gríðarlega vel. Ástæðan fyrir því að við fórum af stað í það var að við sáum strax að við gætum verið að verða fyrir verulegu höggi í ferðaþjónustunni. Í apríl fækkaði heimsóknum í gegnum flugið til Íslands um 22% frá því í fyrra og um 15% í maí. Þetta getur því haft gríðarleg áhrif á ferðaþjónustuna og við þurfum að ná þessu til baka. Og þetta snýst ekki bara um ferðaþjónustuna heldur líka um íslenskt efnahagslíf.

Bara þetta þjóðarátak sem fór af stað á fimmtudaginn síðasta, þegar við báðum hvern einasta Íslending að taka þátt í þessu með okkur, með því að hafa samband við vini og vandamenn erlendis, hefur t.d. skilað því að 2,5 milljónir manna, og mestmegnis erlendis frá, hafa sótt myndbandið á vefinn inspiredbyiceland.com. Við höfum fengið um 3,5 milljónir snertinga á Twitter svo að dæmi sé tekið þannig að þessi hluti átaksins hefur virkað mjög vel. Síðan ætlum við að fylgja þessu eftir með miklum auglýsingum erlendis strax í næstu viku og þetta hefur verið í gangi síðustu tvær vikur. Og það er rétt sem hv. þingmaður segir við erum með gríðarlega sterkar vísbendingar um að átakið sé að skila sér í fjölgun bókana, bæði frá litlum einyrkjum sem höfðu misst allar sínar bókanir fyrir sumarið — þeir sjá von í þessu og eru farnir að fá bókanir inn aftur — og sömuleiðis frá flugfélögunum. Ég mun fá harðar tölur og skýrslu um þetta í næstu viku, nákvæmlega hverju þetta hefur skilað, en lykillinn í velgengni verkefnisins og áframhaldinu er einmitt að gera raunmælingar á meðan á því stendur. Það er verkefni okkar núna.