138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

markaðsátak í ferðaþjónustu.

[10:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þessi svör. Þessu tengist að sjálfsögðu fyrirspurn sem ég lagði fram fyrir nokkru varðandi rannsóknir í ferðaþjónustu. Það er mjög mikilvægt að farið verði mjög vandlega yfir það hvernig hægt er að fjármagna rannsóknir í ferðaþjónustu. Við sjáum að þar vantar tilfinnanlega sömu upplýsingar og í mörgum öðrum atvinnugreinum en ferðaþjónustan er ein okkar mikilvægasta atvinnugrein.

Ég fagna því mjög að heyra að þetta átak sé nú þegar farið að skila árangri. Ég spyr hæstv. ráðherra, og það á að vera hvatning um leið, hvort ekki sé brýnt að reyna eftir megni að tryggja verulegt fé í áframhaldandi markaðssókn og markaðsstarf í þeirri fjárlagagerð sem nú er unnið að. Það er mikilvægt að missa ekki dampinn svo að við getum haldið áfram því góða starfi sem er í gangi.