138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

aðildarumsókn Íslands að ESB.

[10:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vona að það hafi ekki legið í orðum hæstv. fjármálaráðherra að ég hafi verið eitthvað glöð yfir ástandinu í Evrópu. Ég get fullvissað hann um að svo er ekki, ég hef miklar áhyggjur af því. Ég hef enn meiri áhyggjur af því að hér inni séu aðilar sem hafa enga sannfæringu fyrir því að við eigum að ganga í Evrópusambandið, sem hafa ekki tekið af skarið og sagt að við verðum að draga umsóknina til baka. Við erum að eyða tíma og peningum í eitthvert villuljós og það er algerlega ástæðulaust fyrir okkur að vera að eyða meiri kröftum í þessa umsókn.

Mér finnst það niðurlægjandi fyrir íslenska þjóð ef Brusselveldið ætlar að taka þessa ákvörðun 17. júní og ég skora á hæstv. fjármálaráðherra, sem ég veit að hefur enga sannfæringu fyrir því að Íslandi sé betur borgið innan Evrópusambandsins en utan, að beita sér nú fyrir því við ríkisstjórnarborðið að málið fari ekki á þennan veg. Það er einfaldlega ekki boðlegt fyrir okkur að setja þann skugga á þjóðhátíðardaginn okkar að þetta mál verði í hámælum. Mér finnst það ekki boðlegt fyrir íslenska þjóð og hæstv. fjármálaráðherra væri maður að meiri ef hann mundi standa með okkur í þessu máli.