138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

staða sparifjáreigenda.

[11:01]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Við gætum átt hér langt samtal um ríkisfjármálin og nauðsyn þess að koma þeim í rétt horf. Ég minni á að halli á ríkissjóði árið 2008 var rúm 13% af landsframleiðslu og við því þurfti að bregðast. (Gripið fram í.) Við því verður ekki brugðist með öðrum hætti en þeim að afla frekari tekna gegnum skattkerfið og með niðurskurði. Það er það sem við erum að gera. Ef einhver heldur því fram að við hefðum getað horft fram hjá þessum vanda og sópað honum undir teppið og haldið áfram að reka ríkissjóð með þessum halla þá gef ég ekki mikið fyrir þá hagfræði.

Varðandi það hvort ríkisábyrgð sé á innlánum eða ekki þá vita menn hvernig þeim málum er háttað. Við erum annars vegar með Tryggingarsjóð innstæðueigenda sem á minna en ekki neitt og hins vegar erum við með ábyrgðaryfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er í gildi og verður í gildi áfram. Jafnframt liggur fyrir þinginu frumvarp sem skilur á milli gamla innstæðutryggingarkerfisins og nýs innstæðutryggingarkerfis sem mun verða bakhjarl bankakerfisins, og sérstaklega innstæðueigenda, til frambúðar.