138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Eins og áður hefur komið fram er ekkert óeðlilegt við að óskað sé eftir lengri fundartíma hér á Alþingi í þeirri lotu sem nú stendur. Við erum í síðustu viku þingsins samkvæmt starfsáætlun og mörg mál liggja fyrir. Að sjálfsögðu geri ég ekki athugasemd við það. Ég vildi þó gjarnan að hæstv. forseti mundi skýra það hvort átt sé við lengri fundartíma til miðnættis, eða hvort óskað er eftir opinni heimild, ég mundi gera athugasemd við það en geri fyrir mitt leyti ekki athugasemd við heimild til miðnættis.

Ég ítreka hins vegar það sem við sjálfstæðismenn höfum áður sagt úr þessum stól. Við köllum eftir forgangsröðun mála, forgangsröðun í þágu heimilanna, í þágu atvinnulífsins í landinu, að við tökum fyrir þau brýnu mál sem þarf að klára, sem allir eru sammála um að þurfi að klára, og leggjum hin til hliðar og látum þau bíða haustsins. Ég minni á að í september höfum við tíma fyrir ókláruð mál, (Forseti hringir.) þau falla ekki dauð niður.