138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

lengd þingfundar.

[11:20]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að styðja þessa prýðilegu tillögu forsetans. Hún er alveg hárrétt formúleruð. Mér finnst hins vegar umræðan um þetta ekkert sérstaklega uppbyggileg að morgni dags. Það mæðir mikið á Alþingi næstu daga og það verður horft til þess hvernig Alþingi skilar hlutverki sínu. Hér liggja fjölmörg mikilvæg frumvörp fyrir sem að stærstum hluta eru umbótafrumvörp, aðgerðir sem tengjast efnahagsástandinu, atvinnuástandinu og almennt ástandinu í samfélagi okkar. Að sjálfsögðu verður gerð rík krafa til þess að Alþingi leysi það farsællega af hendi og helst í sem mestri samstöðu.

Það er lítil eftirspurn, held ég, eftir hinu, einhverjum ólátum og upplausn á þinginu. Ég verð að segja við minn góða vin, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, að þegar ungum þingmönnum skolar inn á Alþingi á nýjan leik er dapurlegt að þeir skuli að morgni dags koma hingað í ræðustólinn svo skjálfandi af verkkvíða að þeir þurfa að halda sér í stólinn og spyrja með angist í röddinni: Eiga bara að verða kvöldfundir kvöld eftir kvöld? Við hverju búast menn þegar tugir og aftur tugir mála liggja á dagskrá og það á að reyna að ljúka þinginu fyrir tiltekinn tíma (Forseti hringir.) á grundvelli samkomulags sem gert var fyrir löngu síðan? Og nú fer að koma upp spurningin: Standa menn (Forseti hringir.) við það samkomulag að reyna að halda starfsáætlun Alþingis og ljúka þeim verkum sem hér þarf að ljúka?