138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:25]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég hef trú á því að við séum að ræða núna um heilbrigðisþjónustu. Ég vek athygli á því, af því að hér koma menn og tala um vinnuframlag og hvað við eigum að gera á þinginu, að þetta er eina málið frá því að núverandi ríkisstjórn var sett á laggirnar sem fjallar um hagræðingu hjá heilbrigðisstofnunum við þær erfiðu aðstæður sem við búum við núna og ég vek athygli á því að við höfum rætt þetta í kannski einn til tvo tíma á þinginu, þ.e. allan þennan málaflokk. Ég vil líka vekja athygli á því að meiri hluti nefndarinnar tók fyrirætlanir hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. ráðherra og henti þeim nokkurn veginn öllum út úr frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Ég er þeirrar skoðunar að við höfum ekki nýtt tímann sem skyldi á þinginu. Sérstaklega höfum við látið eiga sig að taka þennan mikilvæga málaflokk, sem engin stefna virðist vera í, til umfjöllunar. (Forseti hringir.) Og út af orðum bæði hæstv. ráðherra og hv. stjórnarþingmanna hljótum við að breyta því og bæta úr á þeim fáu dögum sem hér eru eftir fyrir þinglok.