138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[11:26]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu sem við fjöllum nú um er verið að gera heilsugæslunni mögulegt að fara í skipulagsbreytingar og sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Komið hefur fram að núgildandi lög hafa hamlað frekari skipulagsbreytingum hvað það varðar að einn yfirlæknir og einn yfirhjúkrunarfræðingur skuli vera á hverri heilsugæslustöð sem hefur verið túlkað svo að það skuli vera þannig á hverri starfsstöð.

Með þessari breytingu er heilsugæslunni gert mögulegt að fara út í stærri rekstrareiningar með meiri sveigjanleika í skipulagi hverrar starfstöðvar. Við viljum stuðla að því að í því efnahagsástandi sem nú ríkir verði ekki hindranir á því verki og við viljum tryggja að fagleg yfirstjórn sé á hverjum stað eins og þetta frumvarp gerir ráð fyrir.