138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[11:34]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Staða þessa máls, stjórnlagaþings, í þinginu í dag er sú að 2. umr. hófst í gær. Má segja að tekin hafi verið fyrsta umferð í þeirri umræðu þar sem fulltrúar flokka, og reyndar einhverra mismunandi sjónarmiða innan flokka, gerðu grein fyrir afstöðu sinni. Það liggur fyrir nú þegar að málið er verulega umdeilt. Það er ekki einungis um það að ræða að fram komi mismunandi nefndarálit, heldur eru sjónarmiðin fleiri eins og hefur komið fram í umræðunni.

Hv. þm. Ólöf Nordal gerði ítarlega grein fyrir afstöðu okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd í framsöguræðu í gær. Hún er í sem stystu máli sú að við nauðsynlega endurskoðun stjórnarskrárinnar sé rétt og frekar í anda núgildandi stjórnarskrár að Alþingi velji níu manna hóp til að undirbúa tillögur sem komi inn í þingið. Það er vakin athygli á því að Alþingi hafi að núgildandi stjórnlögum ekki heimild til að vísa því verkefni frá sér að setja landinu stjórnlög. Og sú leið sem boðuð er í frumvarpinu, þó stjórnlagaþingið sem þar er lagt upp með sé vissulega ráðgefandi en ekki bindandi, sé í rauninni einhvers konar hjáleið sem ekki sé líkleg til þess að skila árangri. Þetta var afstaða sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd.

Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir gerði líka grein fyrir harðri afstöðu sinni til málsins innan allsherjarnefndar í nefndaráliti fyrir hönd Framsóknarflokksins. Hún rifjaði það upp að Framsóknarflokkurinn hefði um nokkurt skeið stutt það að stofnað yrði stjórnlagaþing, en flokkurinn teldi að slíkt stjórnlagaþing ætti að vera bindandi. Hv. þingmaður gagnrýndi því frumvarpið úr töluvert annarri átt en við sjálfstæðismenn. Við vorum þó sammála um að málið, í þeim búningi sem það er lagt fram hér, sé einfaldlega ekki nægilega gott. Það er ekki fullnægjandi, kemur ekki til móts við mismunandi sjónarmið og á þess vegna að leggja til hliðar.

Sama sjónarmið kom raunar fram hjá hinum óháða þingmanni í allsherjarnefnd, hv. þm. Þráni Bertelssyni. Hv. þingmaður flutti í gær ágæta ræðu þar sem hann lýsti því hve mikilvægt væri að fara í stjórnarskrárbreytingar, hve mikilvægt væri að vanda til verka, hugsa þær breytingar vel, flana ekki að neinu. Hv. þm. Þráinn Bertelsson benti einnig á að það væri ekki knýjandi að afgreiða frumvarpið nú á þeim fáu dögum sem eftir eru þingsins.

Hv. þm. Þór Saari, sem er áheyrnarfulltrúi Hreyfingarinnar í allsherjarnefnd, nálgaðist málið úr enn annarri átt. Hann telur að frumvarpið gangi ekki langt og reifaði sjónarmið sem Hreyfingin hefur uppi um að velja beri á stjórnlagaþing með allt öðrum hætti en lagt er upp með í frumvarpinu. Hv. þm. Þór Saari hefur lýst því margoft yfir að hann telji að þetta mál, ásamt ýmsum öðrum svokölluðum lýðræðisumbótamálum ríkisstjórnarinnar, sé í rauninni umbúðir en ekki innihald.

Síðan koma stuðningsmenn frumvarpsins, ekki margir, þeir tjáðu sig ekki margir í gær. Á máli þeirra mátti helst ráða að þetta væri nú ekkert sérstaklega gott frumvarp, en það væri svona skárra en ekkert. Þeir sem heitast töluðu í málinu töldu að það væri skárra en ekkert.

Ég held að það sé rétt lýsing á stöðu málsins að það eru afskaplega fáir sem í raun og veru styðja frumvarpið. Það eru í rauninni afskaplega fáir. Það eru að því er virðist einungis hæstv. forsætisráðherra og nokkrir þingmenn í Samfylkingunni sem hafa einhvern áhuga á því að málið nái fram að ganga. Aðrir láta einhvern veginn draga sig með, eða eru einfaldlega á móti á mörgum mismunandi forsendum. Samt er málið sett í forgang í dagskrá þingsins.

Það hefur verið vakin athygli á því að fáir dagar eru eftir af störfum þingsins. Fjöldamörg mál bíða afgreiðslu og þarf að klára og það gæti meira að segja náðst samstaða um að klára þau í þágu heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, þar sem atvinnuástandið er hörmulegt, gjaldþrotum fjölgar, fjöldi fólks á yfir höfði sér nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti, fyrirtæki eru að leggja upp laupana o.s.frv. Bent hefur verið á að til meðferðar í þinginu væru fjöldamörg slík mál og þau væri hægt að klára. En þau eru sett fyrir aftan þetta mál, sem ég hef áður í þingræðu kallað sérstakt gælumál hæstv. forsætisráðherra. Miðað við hvernig umræðan hefur verið í þinginu, þá bendir allt til þess að þeir sem raunverulega styðja málið og eru samstiga hæstv. forsætisráðherra í því séu nú ekki óskaplega margir.

Það er ekki hægt að finna brennandi löngun hjá þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna, sem í orði kveðnu styðja málið, til að koma því í gegn. Það hafa ekki verið fluttar heitar ræður fullar af sannfæringu um að þetta sé nauðsynleg leið til að endurbæta íslenska lýðveldið. Menn segja: Jú, þetta er viðleitni, þetta er eitthvað, við viljum láta líta út fyrir að við séum að gera eitthvað, við viljum að fólk sjái að við hlustum á raddir fólksins, þess vegna viljum við koma þessu í gegn — og eitthvað þessu líkt.

Hins vegar er þingið, hvorki hv. allsherjarnefnd né Alþingi Íslendinga, ekki búið að ná nokkurri samstöðu eða nokkurri einni hugsun um hvernig eigi að koma þessum málum á framfæri. Þess vegna stöndum við uppi með mál sem stuðningsmennirnir telja að sé kannski skárra en ekkert, en hafa hins vegar ekki meiri áhuga á en svo að þeir eru ekki tilbúnir að leggja neitt af mörkum til að rökstyðja það að neinu leyti. Ég undanskil hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, sem talaði í gærkvöldi og flutti á margan hátt ágæta ræðu. Ég bendi á að það er eina ræðan sem ég heyrði í gær sem felur í sér einhvern raunverulegan stuðning við málið.

Hv. þm. Siv Friðleifsdóttir úr Framsóknarflokki, sem var reyndar ekki samstiga fulltrúa flokksins í allsherjarnefnd, og vakin var athygli á, sagðist að vísu styðja málið því það héti stjórnlagaþing og væri í áttina að því sem framsóknarmenn hefðu einhvern tímann lagt til. Í hennar orðum var skýrt að það var skárra en ekkert, ekkert sérstaklega gott, bara skárra en ekkert.

Þannig er staða málsins. Af einhverjum sökum velur forusta þingsins að setja það í forgang, vitandi það að það er bullandi ágreiningur um málið, vitandi það að ágreiningur og deilur um það munu fresta afgreiðslu annarra og mikilvægari mála, þegar fyrir liggur yfirlýsing frá fjöldamörgum þingmönnum stjórnarandstöðu og annarra um að þeir séu tilbúnir til að setjast niður, forgangsraða með öðrum hætti, koma með mál, klára mál sem raunverulega skipta máli fyrir heimilin og fjölskyldurnar í landinu, sem raunverulega liggur á. En þetta mál er sett fram fyrir allt annað.

Þetta skil ég ekki, hæstv. forseti. Þetta vinnulag skil ég ekki. Hins vegar er þetta sá veruleiki sem við búum við. Þess vegna höldum við áfram umræðu í dag í bullandi ágreiningi að vali ríkisstjórnarflokkanna, eða a.m.k. að vali forustu ríkisstjórnarinnar. Við höfum reyndar ekki enn heyrt sjónarmið Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í málinu. Ég sé að einn eða tveir úr þeim flokki eru síðar á mælendaskránni og verður forvitnilegt að heyra afstöðu þeirra til málsins. Þeir hafa hins vegar haldið sig mjög til hlés í þessari umræðu, rétt að vekja athygli á því, hæstv. forseti.

Í stuttri ræðu af þessu tagi ætla ég ekki að endurtaka þau sjónarmið sem koma fram í nefndaráliti okkar sjálfstæðismanna í allsherjarnefnd. Ég ítreka bara að þar er í fyrsta lagi áréttað að við teljum að það sé mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána. Í öðru lagi kemur fram að við teljum að rétta leiðin til að undirbúa þær breytingar sé að Alþingi kjósi nefnd, hugsanlega og kannski ekki síst skipaða utanþingsmönnum, sérfræðingum á sviði stjórnskipunarréttar og öðrum sem telja má feng að að fá í verkefni af þessu tagi, til þess að undirbúa tillögur til þingsins, sem mundi í kjölfarið taka sér sérstakan afmarkaðan tíma í störfum sínum til að geta fjallað um stjórnarskrárbreytingar af alvöru.

Við erum opin fyrir því að ræða málið á vettvangi allsherjarnefndar ef málið kemur aftur þangað milli 2. og 3. umr., um hvernig útfærslan á því gæti litið út, en að þá verði um að ræða afmarkaðan tíma í störfum þingsins, þingið setji sér tíma fyrir fram til að klára breytingarnar. Með því móti teljum við að stjórnarskránni væri sýndur sá sómi í störfum Alþingis sem henni ber. Það ber að sýna stjórnarskránni sóma. Alþingi ber að sýna stjórnarskránni sóma. Og Alþingi má ekki gleyma því að stjórnarskrárvaldið, eða aðkoma Alþingis að stjórnarskrá, er eitt af grundvallarhlutverkum Alþingis samkvæmt stjórnlögum okkar. Aðkoma þjóðþings að setningu stjórnarskrár er raunar ekki einhver íslensk sérviska. Þannig er það í öllum löndum sem við berum okkur saman við, öllum vestrænum ríkjum.

Það eru til mismunandi aðferðir við að setja ríki stjórnarskrá en meginreglan er sú að frumkvæði og höfuðábyrgð á setningu stjórnarskrár er alltaf í höndum kjörinna þjóðþinga. Stjórnlagaþing eru til, það eru til dæmi um það í sögunni. Þau eru fá, hafa einkum komið upp þegar um er að ræða sambandsríki, þegar verið er að samræma stjórnarskrár mismunandi fylkja eða ríkja innan ríkjasambanda o.s.frv., eða í undantekningartilfellum eins og nefnd hafa verið þegar Þýskaland var reist úr rústum nasismans og síðari heimsstyrjaldar og í Suður-Afríku eftir að aðskilnaðarstefnan var brotin á bak aftur. Þó var það þannig í Suður-Afríku, bara svo dæmi sé tekið, að það var kjörið þjóðþing sem hafði meginhlutverk í stjórnlagaþinginu og það voru þingmenn í neðri og efri deild suðurafríska þingsins sem sátu á þessu stjórnlagaþingi. Rétt að halda því til haga.

Tilraunastarfsemi af þessu tagi er ekki með öllu óþekkt. Það hefur verið nefnt í gögnum málsins að í Austurríki var skömmu eftir síðustu aldamót sett á fót ráðgefandi stjórnlagaþing sem hefur einhverja hliðstæðu við það þing sem hér er lagt til. Það starfaði í tvö ár og engin af þeim breytingum sem þar voru ræddar eða samþykktar náði fram að ganga. Það var ráðgefandi þing en skilaði engum breytingum á stjórnarskrá. Það er nú eina dæmið sem er að einhverju leyti sambærilegt við það sem við erum að gera hér. Þetta er rétt að hafa í huga.

Ég ætla að nota þær fáu mínútur sem ég á eftir af ræðutímanum til að fara yfir ákveðin grundvallarsjónarmið í sambandi við stjórnarskrár vegna þess að mér hefur virst af umræðunni að menn hafi nokkuð mismunandi sýn á hlutverk stjórnarskrár. Frá mínum bæjardyrum séð er ljóst að stjórnarskrá er tvennt. Hún er einhvers konar grundvallarlög samfélagsins sem annars vegar setur ríkisvaldinu takmörk, segir fyrir um skiptingu verka milli stofnana ríkisvaldsins og leggur þannig rammann fyrir skipulag ríkisvaldsins. Hins vegar er um að ræða ákvæði sem takmarkar rétt ríkisvaldsins gagnvart þegnunum. Þetta eru hvort tveggja afar mikilvæg atriði. Þetta eru atriði sem í öllum vestrænum löndum allt frá 18. öld hefur verið talið mikilvægt að hafa í grundvallarlögum, sem væru æðri almennum lögum sem sett eru með venjulegum hætti. Þetta er viðfangsefnið. Annars vegar ákvæði sem segja fyrir um skipulag ríkisvaldsins og hins vegar ákvæði sem segja fyrir um valdmörk ríkisvaldsins gagnvart þegnunum.

Stjórnarskrár eru sem grundvallarlög þess eðlis að þeim á að breyta frekar sjaldan, að mínu mati. Það er ekki kostur að breyta stjórnarskrá oft. Stundum hefur mér þótt af umræðunni að sumir hv. þingmenn teldu að það væri mælikvarði á gæði stjórnarskráa hversu oft þeim væri breytt. Ég er ekki sammála því. Það eru ekki sjálfstæð rök fyrir stjórnarskrárbreytingum að það sé langt síðan síðustu stjórnarskrárbreytingar voru gerðar. Hins vegar vil ég undirstrika að reynslan og þá er það reynsla lengri tíma, reynsla yfir eitthvert árabil, ekki reynsla einhverra missira, sem getur gefið okkur tilefni til að breyta stjórnarskrá. Það er í mínum huga tímabært að fara í slíka endurskoðun núna. Það er tímabært að breyta því í stjórnarskránni sem áríðandi er að breyta og það er mikilvægt að reyna að gera þær breytingar í góðri sátt, sem mestri sátt. Auðvitað vitum við að hin fullkomna sátt er varla til nema í hinum fullkomnasta heimi allra heima og stjórnarskrá er í eðli sínu pólitísk. Það er samt æskilegt að ná sem breiðastri sátt um stjórnarskrárbreytingar, þannig að stjórnarskráin geti verið grundvallarlög sem standa af sér sviptingar í stjórnmálum frá missiri til missiris, frá ári til árs, standa af sér venjulegar alþingiskosningar og stjórnarskipti og þess háttar.

Það að gera eins og núverandi ríkisstjórn hefur frumkvæði að og forgöngu um í þessu máli, að reyna að keyra í gegn með takmörkuðum stuðningi, hugsanlega þó meiri hluta stuðningi, frumvarp sem felur í sér upphaf og aðferð við stjórnarskrárbreytingar gefur ekki góðan tón um að ætlunin sé að ná samstöðu í málinu. Ég hef áhyggjur af því. Ég hef áhyggjur af því að með því að fara í verkefnið í stríði séu líkur á því að ófriðurinn haldist áfram. Ef reynt væri að fara með friði í verkefnið, þokkalegum friði, þokkalegri samstöðu, væru meiri líkur til þess að einhver árangur gæti náðst. En það er val hæstv. ríkisstjórnar og það er val að því er virðist meirihlutaflokkanna á þingi, a.m.k. þess flokks sem hefur áberandi forustu í málinu, að velja frekar stríðið en friðinn í sambandi við upphaf þeirra stjórnarskrárbreytinga sem allir eru sammála um að nauðsynlegt er að fara í.