138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:02]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stjórnlagaþing. Frumvarp til laga um stjórnlagaþing og stjórnlagaþingsumræðan er að sjálfsögðu ekki ný af nálinni og höfðu framsóknarmenn nokkra forustu um að koma með slíkar hugmyndir, að sjálfsögðu hafa einstaklingar víða velt því fyrir sér eða komið með tillögur jafnvel.

Það sem manni sýnist þessi umræða snúast um er í rauninni þrennt. Í fyrsta lagi er spurning hvort Alþingi eigi sjálft að fara í þessa endurskoðun þar sem Alþingi er jú, sem er að sjálfsögðu rétt, kjörið til þess að fara hér með ákveðin verkefni og hefur ákveðnar skyldur. Í öðru lagi hvort það sé nógu afgerandi að vera með ráðgefandi stjórnlagaþing og hér hafa margir bent á að það sé ekki í anda þess sem rætt var áður. Í þriðja lagi hvort þingið skuli vera sett bindandi, þ.e. ráðgefandi eða bindandi, og hvort Alþingi eigi að hafa frumkvæði eða fara með þessa vinnu.

Framsóknarflokkurinn, eins og hefur komið fram, ályktaði á flokksþingi sínu í janúar 2009 að það skyldi boða til stjórnlagaþings og sú ályktun er nokkuð skýr um það. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa það sem kallast „Fyrstu skref“ í þessari ályktun Framsóknarflokksins:

„Þingflokkur Framsóknarflokksins skal leggja fram tillögu á Alþingi um kosningu til stjórnlagaþings í samræmi við niðurstöður íbúalýðræðisnefndar flokksins. Einnig verði lögð fram tillaga um breytingu á stjórnarskránni þess eðlis að breytingar á stjórnarskrá verði bornar undir þjóðaratkvæði. Stefnt skal að því að stjórnlagaþing verði kallað saman sem fyrst og tillögur þess að nýrri stjórnarskrá verði lagðar fyrir þjóðina. Stjórnlagaþing skal ekki vera skipað núverandi eða fyrrverandi alþingismönnum, ráðherrum eða formönnum stjórnmálahreyfinga.“

Við þessari ályktun varð þingflokkur Framsóknarflokksins og flutti frumvarp til stjórnskipunarlaga á 136. löggjafarþingi og frumvarpið hét: Frumvarp til stjórnskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum.

Frumvarpið sem slíkt er svolítið öðruvísi að uppbyggingu en það sem nú liggur fyrir en meginmunurinn er í rauninni sá að þar er kveðið á um bindandi niðurstöður, ef það má orða það þannig, þegar aftur á móti núverandi frumvarp eða það sem liggur fyrir gerir ráð fyrir að vera ráðgefandi, þ.e. að stjórnlagaþingið sé ráðgefandi til Alþingis. Í ályktun Framsóknarflokksins frá flokksþinginu kemur ekki fram hvor leiðin skuli farin eða hvernig frumvarpið skuli líta út. Það er talað um að kjósa skuli til þings í samræmi við niðurstöðu lýðræðisnefndar flokksins o.s.frv. Við höfum eðlilega öll skiptar skoðanir á því hvaða leið skuli farin í þessu. Sjálfur hef ég marglýst því yfir að ég hafi kannski haft minni sannfæringu en margir aðrir fyrir því að farin skuli þessi leið en ég hef jafnframt sagt að ég ætli mér að fylgja eftir stefnu flokksins sem þarf samþykkt í þessu efni. Hins vegar er vitanlega komin upp sú staða að það eru deildar meiningar um hvernig eigi að nálgast niðurstöðuna sem óskað er eftir og spurning þá hvernig málinu reiðir af þegar á hólminn er komið. Síðan hafa að sjálfsögðu ýmsir aðilar, bæði hér á þingi og fyrir utan þingið, komið fram með aðrar hugmyndir en akkúrat það að boða til stjórnlagaþings. Nægir að nefna þær hugmyndir sem hv. þm. Þráinn Bertelsson hefur viðrað og síðan rithöfundurinn Njörður P. Njarðvík. Það hefur verið alveg skýrt af hálfu Sjálfstæðisflokksins hér á Alþingi að þeir eru ekki tilbúnir til þess að fara þessa leið og hefur sá flokkur verið mjög stífur á sinni meiningu og því miður sýnt lítið svigrúm til þess að menn geti nálgast einhverja niðurstöðu. Er það miður.

Að mínu viti skiptir í þessu ferli öllu saman mestu máli að stjórnarskráin sé endurskoðuð, að það sé gert með trúverðugum hætti þannig að bæði þjóðin og þingið treysti því að verið sé að gera umbætur. Menn hafa velt því fyrir sér hvaða meginbreytingar þurfi að koma þar fram og eflaust eru skiptar skoðanir um það en ég held að það sé mikilvægt að einfalda leiðir til þess að vera hér með þjóðaratkvæðagreiðslur og kveða skýrar upp um það. Það er kannski svona meginverkefnið.

Það hefur komið fram að þetta sé mjög kostnaðarsamt. Ég get tekið undir að það er mikill kostnaður. Þegar um er að ræða atburð eða vinnu sem getur kostað á bilinu 350–500 milljónir þá er það vitanlega mikill kostnaður og eðlilegt að menn velti fyrir sér hvort hægt sé að gera þetta með ódýrari hætti en ná fram góðri niðurstöðu samt sem áður.

Ég held að það sé mikilvægt að menn leiti leiða til þess að ná sátt um í hvaða ferli þetta á að fara því að það er ekki mikill bragur á því að þingið skuli núna síðustu dagana vera fast í þessari umræðu líkt og það var fyrir nokkrum mánuðum síðan fast í sömu umræðu. Ég held að það sé ekki hægt að kenna einhverjum einum stjórnmálaflokki um að svo sé heldur held ég að það séu fyrst og fremst vinnubrögðin, að draga það að koma með svona stórt og eldfimt mál, af því að vita mátti að þetta yrði eldfimt mál. Og koma með það á síðustu dögunum — ég hefði talið skynsamlegra að koma með þetta miklu fyrr til umræðu í þinginu. Það hefði verið hægt að taka þessa umræðu og við værum þá væntanlega að fara að greiða atkvæði um einhverja niðurstöðu sem væri búið að vinna sig í gegnum. En nú virðist mér sem það eigi að reyna að kreista hér í gegn einhverja niðurstöðu sem verður væntanlega í ósátt við mjög marga, mér sýnist það vera í ósátt við fólk úr flestum flokkum, því miður.

Ég vil því velta upp, frú forseti, hvort það séu einhverjar leiðir til þess að fá menn hreinlega til að setjast niður og athuga hvort hægt sé að leysa þetta og hugsanlega að kalla til aðstoðar sérfræðinga sem hafa komið að því að semja þessi frumvörp sem eru lögð fram eða hafa unnið í þessu til að reyna að teikna upp eitthvert ferli sem getur leitt til farsællar niðurstöðu. Ég get tekið undir með þeim sem hafa sagt, og ég ítreka að ég tek undir með þeim, að þetta sé ekki það brýnasta sem við þurfum að klára hér á þessu þingi. Þetta er hins vegar brýnt mál, það má enginn túlka orð mín öðruvísi, það er mjög brýnt að það sé farið í að endurskoða stjórnarskrána.

Ég verð líka að nota tækifærið og segja að í ljósi þess að nú er í gangi mikil aðlögun að Evrópusambandinu og maður veltir fyrir sér hvort það sé skynsamlegt að vera að draga breytingar á stjórnarskrá landsins eða hvort það sé viturlegra að flýta þeim. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því og hvort það hefur einhver áhrif. Það er hins vegar óneitanlega hálf kaldhæðnislegt að vera í viðræðum um afsal ákveðinna valda eða ákveðinna þátta er snúa að fullveldi landsins um leið og við erum að ræða það að endurskoða stjórnarskrána. Það var ekki stemning eða vilji til þess að láta þjóðina ákveða hvort þessar aðildarviðræður skyldu fara fram en hins vegar er mikið lagt upp úr því í þessu frumvarpi að gera veg þjóðarinnar til að koma að þjóðaratkvæðagreiðslum sem mestan. Þar skiptir í tvö horn, ég verð nú að koma því hér að.

Hér stöndum við frammi fyrir því og sjáum í fréttum dag eftir dag að skuldir heimilanna hrannast upp. Gjaldþrot vofir yfir einstaklingum og fólki. Þau úrræði sem ríkisstjórnin kynnti hér og fór með í gegn og margir þingmenn og við flest studdum en lýstum miklum efasemdum um hafa reynst sannspá. Því sakna ég þess að hafa ekki enn þá séð á dagskrárskjölum þingsins eða í þeim áætlunum sem þó hafa verið kynntar fyrir okkur hvernig eigi að koma til móts við heimilin með meira afgerandi hætti en gert hefur verið. Því það er í rauninni mjög sérstakt, frú forseti, að lesa og sjá viðtöl við fólk sem fellur kannski ekki akkúrat inn í þá staðalímynd sem er gjarnan dregin upp af þeim sem eiga í verulegum erfiðleikum, fólk sem ekki er með bílalán, ekki með gengistryggð lán eða slíkt en er samt í verulegum vandræðum. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að gleyma ekki þeim hópi sem er eingöngu með íslensk lán, húsnæðislán eða önnur, sem hafa hækkað gríðarlega þar sem höfuðstóllinn situr eftir, feitur og pattaralegur, og greiðslurnar af lánunum en það er ekkert í raun verið að gera til að koma til móts við þetta fólk. Það er því sorglegt að sjá að forgangsröðunin skuli vera eins og hún er hér á Alþingi, að við séum ekki að taka á þessum brýnu málum. Það eru mikil vonbrigði að hafa haft rétt fyrir sér með að úrræði ríkisstjórnarinnar sem fóru hér í gegn hafi verið gagnslítil eða gagnslaus. Það er sorglegt að þurfa að minna á það. Það má segja að það tengist þessu efni að velta því fyrir sér hvort sé nú mikilvægara að klára þetta mál hér í hamagangi og ósætti eða reyna að ná fram verulegum breytingum við að aðstoða heimilin og atvinnulífið í þeim kröggum sem þar eru.

Frumvarp það sem liggur hér fyrir ber þess að sumu leyti merki að vandræðagangur hafi verið með það í allsherjarnefndinni og lýsir það sér ágætlega í orðum þingmanna úr flestum flokkum og einstaklinga sem hér hafa talað í þessum ræðustól um frumvarpið. Ég hef áhyggjur af því hvernig næstu skref munu þróast í þessari umræðu.

Eitt sem á líka eftir að nefna er hvort það þurfi ekki að setjast niður og fara yfir það með formönnum stjórnarflokkanna, eins og ég sagði hér áðan, að leita leiða til þess að ná einhvers konar sátt um hvernig málið verður klárað. Ég ítreka að það er mjög mikilvægt að endurskoða stjórnarskrána. Ég held að það sé það sem stendur upp úr í þessari umræðu. Ég tel að það sé eðlilegt að skiptar skoðanir séu um hvort ráðgefandi eða bindandi stjórnlagaþing sé heppilegt, ég geri engar athugasemdir við að menn hafi skiptar skoðanir á því. Ég hef í raun meiri áhyggjur af því að umræðan hér í þinginu muni snúast upp í deilur um þetta mál en ekki þau brýnu mál sem ég nefndi áðan. Ég held, frú forseti, að það sé mikilvægt að reyna að hraða því að koma þeim málum á dagskrá. Ég sé fyrir mér að umræðan um þetta og önnur mál sem eru á dagskránni geti tekið mjög langan tíma.

Í frumvarpinu sem er mjög ítarlegt er komið inn á hin ýmsu atriði og í rauninni er mjög nákvæm lýsing á því hvernig þeir sem bera þetta frumvarp uppi telja að eigi að vinna þessa vinnu en það kemur fram í athugasemdum við frumvarpið á bls. 9 og skýrir kannski hluta af þeirri umræðu sem hér er, en þar stendur, með leyfi forseta:

„Veigamesta efnislega breytingin frá fyrri tillögum felst þó í því að frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem stjórnlagaþingi er ætlað að samþykkja verður nú sent Alþingi til áframhaldandi meðferðar og hefur Alþingi eins og endranær endanlegt ákvörðunarvald um þær breytingar sem samþykktar verða á stjórnarskrá. Verður þá í kjölfarið að rjúfa þing skv. 1. mgr. 79. gr. stjórnarskrárinnar og láta fara fram almennar kosningar.“

Þetta er að sjálfsögðu eins og ég nefndi hér áðan eitt af því sem hefur valdið deilum og ekki náðst sátt um í nefndinni og verð ég því að lýsa algjörlega ábyrgð á hendur þeim sem stjórna og hafa stýrt allsherjarnefnd fyrir í hvaða hnút þetta mál fór í og er í. Það kann hins vegar að vera eins og ég hef margnefnt möguleiki á að ná einhvers konar sátt um þetta. Alla vega held ég, frú forseti, að það sé mikilvægt að þetta mál verði í það minnsta tímabundið lagt til hliðar hér í umræðunni þannig að menn geti sest niður og reynt að finna lausn á því. Það er þá hægt að koma með málið aftur á dagskrá seinna í dag eða á morgun hreinlega ef menn vilja leggja slíka ofuráherslu á að það sé keyrt í gegn. Ég held að sé mjög brýnt að önnur mál sem eru ekki síður mikilvæg komist hér á dagskrá.

Það eru enn þá nokkur mál í nefndunum sem eru til framfara og þurfa að fara hér í gegn. Eitt mál var samið um í kringum jól og áramót, þegar fundin var lausn á hinu mikla Icesave-máli, þá var samið um það að fyrir þingfrestun yrði búið að ganga frá frumvarpi um vexti og verðtryggingar. Ég held að mikilvægt sé að minna á það hér til að það loforð og þeir samningar verði ekki sviknir.

Síðan má t.d. nefna að í iðnaðarnefnd er verið að ljúka við frumvarp varðandi ívilnanir vegna fjárfestinga. Það er mjög þarft frumvarp. Eflaust verða einhverjar skiptar skoðanir um það. Ég hins vegar fagna því mjög sem þar er. Eins og frumvarpið lítur út í dag mun ég greiða því götu hér í þinginu með kannski einhverjum athugasemdum, en frumvarpið er mjög til bóta.

Þetta eru mál sem ég held að sé mikilvægt að hleypa á dagskrá svo dæmi séu tekin. Ég held því, frú forseti, að án þess að slá þetta mál neitt út af borðinu eigi menn að setjast niður og skoða hvort það sé hægt að raða hér dagskránni upp með öðrum hætti meðan reynt er að finna lausn á málinu því að það má öllum vera ljóst að það verður ekki samþykkt í því formi sem það er í einhverri sátt og mun því tími þingsins eflaust fara mikið í þá umræðu.

Ég hef eflaust ekki talað mjög skýrt um hver afstaða mín er til þessa frumvarps. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú að ég hef ekki algjörlega mótað mér skoðun á því. Ég sagði í upphafi ræðu minnar að ég virði það mikla verk og þá vinnu sem fólk hefur lagt á sig við að koma á þessu stjórnlagaþingi en öll þurfum við að sjálfsögðu að taka okkar afstöðu og ákvarðanir á endanum.