138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir ágæta ræðu. Hann talaði töluvert um og setti út á forgangsröðunina á þinginu og gerði sérstaklega að umtalsefni skuldavanda heimila og fyrirtækja. Nú voru lögð fram frumvörp af hálfu félags- og tryggingamálaráðherra, sem eru til meðferðar í félags-og tryggingamálanefnd, einmitt um þau úrræði sem hv. þingmaður vitnaði til, þ.e. skuldavanda heimilanna, greiðsluaðlögun, umboðsmann skuldara eða hvað þetta heitir nú allt saman. Í hv. félags- og tryggingamálanefnd er búið að taka þessi frumvörp og nánast rífa þau niður í frumeindir. Niðurstaðan verður sú að nefndin mun flytja nánast ný frumvörp, sem gerir það að verkum að þau munu ekki fara til umsagnar til viðkomandi aðila eftir að búið er að breyta þeim svona mikið.

Því vil ég spyrja hv. þingmann, í ljósi þess sem gerðist hér síðastliðið haust þegar við keyrðum frumvarp um sams konar mál í gegn á mjög stuttum tíma, hvort hv. þingmaður telji ekki að það væri mjög mikilvægt og nauðsynlegt að þessi mál færu aftur til umsagnar og menn fengju að skoða þau út frá þeim hliðum. Það er búið að breyta frumvörpunum það mikið að þau verða nánast endurflutt. Væri ekki skynsamlegra að taka þau mál á dagskrá og eyða tímanum sem eftir er á þinginu einmitt til þess að ræða þau mál út frá þeim grunni, vegna þeirra miklu breytinga sem þegar er búið að gera á frumvörpunum, til þess einmitt að forðast að lenda í vandamálum seinna meir þegar hugsanlega verður búið að samþykkja frumvörpin á hundavaði í gegnum þingið á nokkrum klukkutímum og jafnvel á næturfundum?