138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta með forgangsröðunina sem ég, eins og ég lýsti í ræðu minni, hef áhyggjur af. Það er stutt eftir af þinginu, það er alveg ljóst.

Ég verð að segja að ég get ekki alveg svarað því hvort það sé eðlilegt að þetta fari aftur til umsagnar þar sem ég hef ekki séð frumvörpin eða fengið kynningu á því hvaða breytingar félags- og tryggingamálanefnd er að gera á þeim. Ég reikna með og vona að nefndin bæti þau verulega, sem þýðir væntanlega að þau hafa ekki verið þannig gerð að nefndin hafi talið að þau leystu úr þeim brýnu málum sem þarf að leysa úr. Það er hins vegar óheppilegt ef ekki gefst tími til að leita umsagnar hjá til þess bærum aðilum. Vitanlega er einnig hætta á því að frumvörpin komi, eins og við höfum rekið okkur á hér í þinginu, eins og bjúgverpill aftur inn í þingið — eða búmerang, afsakið, frú forseti, að ég noti það orð — komi sínkt og heilagt til okkar aftur. Það er auðvitað ekki gott heldur.

Ég vona svo sannarlega að þær breytingar sem nefndin gerir séu þannig að væntanlegir umsagnaraðilar sem fá þær ekki til umsagnar gætu vel fellt sig við þær og mundu gera litlar athugasemdir. Vitanlega væri ákjósanlegast að þeir gætu fjallað um þetta. Það er mjög brýnt, ef þarna eru umbætur, að þær nái fram að ganga en það er jafnóásættanlegt að það skuli gerast á síðustu dögum þingsins þannig að ekki gefist tækifæri til þess að fjalla um þær efnislega og með athugasemdum.