138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[12:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi frumvörpin sem koma frá hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til félags- og tryggingamálanefndar þá hlýtur það að vera áfall fyrir þann hæstv. ráðherra að frumvörp hans skuli vera tekin og nánast hent í ruslið og ný frumvörp samin. Það hlýtur að segja eitthvað um það frumvarp sem kom fyrir nefndina.

Auðvitað er ákjósanlegast að þeir aðilar sem hafa eitthvað um þetta mál að segja fái tíma og tækifæri til þess en ef í þessu frumvarpi, sem ég hef ekki eða þingflokkur minn enn þá fengið kynningu á, felast verulegar bætur fyrir heimilin sem nauðsynlega þarf að koma á núna, svo dæmi sé tekið, kann að vera réttlætanlegt að sleppa umsagnarferlinu í ljósi þess tímaramma sem er. Ef svo er hins vegar ekki, ef við þingmenn teljum að ekki sé nógu langt gengið, er vitanlega eðlilegt að gefa frest eða tíma til þess að fara yfir málið.

Varðandi frumvarp um stjórnlagaþing sem hér er rætt og hvort fresta eigi því fram í september — ég er ekki endilega viss um að best sé að gera það. Það sem ég er að tala um er að rétt sé að taka það til hliðar í dagskránni og gá hvort menn geti mögulega sætt sig á málsmeðferð og hvernig menn sjái fyrir endann á þessu þrætuepli. Það getur vel verið að það verði niðurstaðan en ég held að það eigi ekki að gefa sér neitt slíkt. Það sem vakir fyrir mér er hreinlega að önnur mál komist að. Það er mjög brýnt að stjórnarskráin sé endurskoðuð og framsóknarmenn hefðu aldrei lagt fram þessa tillögu ef þeir teldu ekki að svo væri.