138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:05]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að ræða málefni skilanefndanna sem eru vissulega mjög mikilvæg. Reyndar eru eignir þessara föllnu fyrirtækja vel á fjórða þúsund milljarðar og þar af leiðandi mun meiri en eignir hins nýja endurreista bankakerfis. Það liggur því í hlutarins eðli að það skiptir miklu máli hvernig þeim tekst til með rekstur sinn og sérstaklega hversu vel þeim tekst til við að hámarka virði eigna sem síðan verða greiddar út til kröfuhafa á næstu árum. Þetta er ferlið sem við hljótum að fylgjast mjög vel með. Það stendur upp á Ísland og sérstaklega hið íslenska ríki að sjá til þess að þetta ferli sé sem best og að hagsmuna kröfuhafa sé gætt í hvívetna. Kröfuhafarnir eru í flestum tilfellum erlendir en í Landsbanka Íslands á þó ríkið mjög mikilla hagsmuna að gæta og einhverra í hinum bönkunum auk þess sem innlendir aðilar, svo sem lífeyrissjóðir, eiga einnig kröfur á alla föllnu bankana.

Kostnaður við rekstur þessara þrotabúa hefur verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu, eiginlega alveg frá því að til þeirra var stofnað. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vék að þeim tölum áðan og vegna þess verð ég að lýsa því yfir að mitt mat er, eftir að hafa skoðað þessar heildartölur og borið þær saman við reynslu frá sambærilegum rekstri erlendis og einnig almennt við kostnað við rekstur þrotabúa innan lands, að því fari fjarri að þessi kostnaður stingi á einhvern hátt í augu. Raunar vekur hann frekar athygli fyrir að vera mjög lágur í þessu samhengi þótt ég vilji ekki gera lítið úr því að þetta eru háar fjárhæðir í íslensku samhengi og að sumir þeirra sem starfa fyrir þessar skilanefndir hafi há laun í íslensku samhengi. Til að varpa frekara ljósi á þetta er rétt að benda á að heildarverðmæti eigna sem þessi þrjú þrotabú sýsla með var um síðustu áramót 3.560 milljarðar kr. sem er ríflega tvöföld landsframleiðsla Íslands og mun hærri fjárhæð en heildareignir hins endurreista bankakerfis. Þar fyrir utan eru auðvitað fleiri þrotabú sem við skulum ekki gera að umtalsefni hér.

Heildarkostnaður við umsýslu með öllum þessum eignum og samskipti við kröfuhafa og annað sem vinna þarf í þessum þrotabúum var, eins og réttilega kom fram hjá þingmanninum, um 20 milljarðar kr. Það eru um 6 prómill af heildareignum, 0,6%, aðeins mismunandi eftir bönkum, á bilinu 0,3% og upp í 1%. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta þyki mjög lágt og raunar það lágt að erlendir kröfuhafar hafa velt fyrir sér hvort settur hafi verið nægilegur mannafli í að sinna þessum eignum, sérstaklega við að hámarka endurheimtur af búum hinna föllnu banka. Nú ætla ég að leyfa mér að vona að svo sé, þ.e. að menn veiti eðlilegan mannafla og fé í að hámarka endurheimtur. Það er oft mjög erfitt og reyndar mjög kostnaðarsamt, en kostnaðurinn er hæstur utan lands. Innlendur kostnaður vegna þessa er tiltölulega lágt hlutfall heildarkostnaðar í og með vegna þess að þótt laun þessara skilanefndarmanna og annarra sem starfa fyrir bankana séu frekar há í íslensku samhengi þykja þau mjög lág í alþjóðlegu samhengi.

Þingmaðurinn vék aðeins að því hvernig skilanefndirnar hlutuðust til um rekstur og sölu á þeim eignum sem þær hafa. Ég get ekki tekið undir þau orð sem hún hafði um það þótt vissulega þurfi að fylgjast vel með því að þar sé vel staðið að verki. Ég vek athygli á því að hinar innlendu eignir hinna föllnu banka eru í langflestum tilfellum í umsjá nýju bankanna en ekki skilanefnda eða slitastjórna. Þau tilfelli má nánast telja á fingrum annarrar handar þar sem þrotabúin sjálf sýsla með innlendar eignir og fyrirtæki, þá alla jafna við allsérstakar aðstæður. Hafi menn eitthvað út á það að setja hvernig bankakerfið vinnur úr málum íslenskra fyrirtækja (Forseti hringir.) verða þeir að beina sjónum sínum frekar að nýju bönkunum en þrotabúum hinna gömlu.