138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

störf skilanefnda bankanna.

[14:22]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við skilanefndir. Ég held að hinn venjulegi Íslendingur skilji lítt verksvið skilanefnda og slitastjórna og skilin þar á milli. Bönkunum voru skipaðar skilanefndir við fall þeirra haustið 2008 og það gerði Fjármálaeftirlitið. Hlutverk skilanefndanna var að halda utan um eignir hinna föllnu banka með það að markmiði að skilin milli þeirra og nýrra rekstrarhæfra banka yrðu eðlileg. Dómstólar skipuðu síðan bönkunum slitastjórnir til að vinna að formlegu kröfulýsingaferli. Skilanefndirnar áttu áfram að sinna því hlutverki sínu að vernda eignasafn bankans til að tryggja að sem mest fengist upp í kröfur.

Flest héldum við að skilanefndirnar mundu eiga sér stuttan líftíma og að niðurstaða fengist fljótt í eignastöðu hinna föllnu banka. Nú eru nýir bankar komnir á koppinn en skilanefndirnar sýsla enn þó að gömlu bankarnir séu ekki með neina eiginlega starfsemi. Það er því óljóst hvað þær eru að gera, hver hefur eftirlit með störfum þeirra og hvenær störfunum muni ljúka. Það væri fróðlegt að fá svör við þessum spurningum frá hæstv. ráðherra á eftir.

Slitastjórnir eru að vinna með kröfur og kröfulýsingar svo smám saman komi í ljós hverjir eiginlegir eigendur hinna nýju banka eru. Það virðist vera afmarkað verkefni svo vonandi skil ég það rétt að þegar afstaða hefur verið tekin til allra krafna lýkur störfum þeirra.

Skilanefndir og slitastjórnir eru nauðsynlegar til að vinna að endurreisn bankakerfisins sem er samfélaginu svo mikils virði. En það er mikilvægt að greina almenningi frá störfum þeirra, kjörum, eftirlitsaðilum og lokapunkti til að almenningur á Íslandi skilji og fái trú á störfum þess fólks sem vinnur þessi umtöluðu og oft umdeildu störf.

Að lokum langar mig til að ítreka spurningar mínar til hæstv. ráðherra um störf skilanefndanna: Hvað eru þær að gera, hver hefur eftirlit með störfum þeirra og hvenær mun störfunum ljúka?