138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[15:03]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar og byrja á því að óska honum til hamingju með daginn. Varðandi það sem þingmaðurinn nefnir og varðar aðkomu almennings að stjórnlagaþingi þá er gert ráð fyrir því að fundir stjórnlagaþings séu haldnir í heyranda hljóði, þeir séu öllum opnir eftir því sem húsrúm leyfir og fjallað er um kynningu og þátttöku almennings í þessu efni, kynningarefni og annað slíkt. Meðal annars er hér að finna breytingartillögu, eins og ég reyndar gat um í fyrri ræðu minni, þess efnis að það sé áskilið að stjórnlagaþingið efni til funda í hverju kjördæmi á fyrsta starfstímabili sínu til að leita eftir hugmyndum og sjónarmiðum almennings. Ég lagði sjálfur mikla áherslu á það í vinnu allsherjarnefndar að við tryggðum þetta atriði af því að við þyrftum að vekja áhuga almennra borgara á verkefninu og kalla eftir umræðum um málið og ég tel að ágætlega sé fyrir því séð. Ég ætla ekki að útiloka að gera mætti betur í þeim efnum.

Þetta er 2. umr. um málið og ég ætla ekki að útiloka að ef menn telja að hægt sé að tryggja þátttöku almennings og aðkomu að þessu ferli öllu með enn betri hætti en hér er gert ráð fyrir sé hægt að hugsa sér það þannig. Hafi þingmaðurinn fram að færa einhverjar hreinar og klárar breytingartillögur í þessu efni og vilji koma þeim á framfæri, t.d. á milli 2. og 3. umr., tel ég sjálfsagt að við skoðum það. Ég vil ekki útiloka eða loka á neitt í þessu efni vegna þess að umræðu um málið er að sjálfsögðu ekki lokið í þinginu þó að hér fari fram 2. umr. um málið.