138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það er margt undir þessa dagana á Alþingi, dagskrá manna riðlast mjög skjótt þegar snarpir vindar blása. Þannig hefur háttað til m.a. um ýmis dagskrármál og röð ræðumanna í umræðu um þetta merka mál sem er frumvarp um stjórnlagaþing. Ég hef hlýtt á þó nokkuð margar ræður um málið og hef í rauninni orðið miklu fróðari um þá sögu sem stjórnarskrárbreytingar eiga sér í þessum sölum. Ég hef orðið vitni að því oftar en ekki að margir hv. þingmenn detta í það far að tala um að svona hafi þessi flokkurinn gert í þann tíð og þetta hefði verið stefna hins flokksins í „den tid“ o.s.frv. þannig að í umræðum um þetta mikla mál, stjórnarskrárbreytingar, geta menn sjaldnast farið upp úr þeim gömlu hjólförum sem farartæki fortíðarinnar hafa markað í íslenska stjórnmálasögu. Og það er á margan hátt nokkuð skiljanlegt í ljósi þess sem sagt hefur verið að stjórnarskráin sé æðst allra laga og verndi einstaklingana gagnvart ríkisvaldinu.

Ég var mjög hugsi yfir þeirri umræðu sem hér fór fram í gærkvöldi, t.d. þegar rakið var í ágætri ræðu hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni hversu miklar breytingar hafi í rauninni verið gerðar á stjórnarskránni, ég hafði ekki áttað mig á því. Og það er ótölulegur fjöldi breytinga sem gerður hefur verið í gegnum árin á fjölda greina. Ýmsir merkir áfangar hafa náðst í þeim efnum eins og menn hafa bent á, í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sérstaklega. Að sjálfsögðu er mjög auðvelt að viðurkenna það í ljósi þeirrar umræðu sem hefur farið fram að ýmis atriði í stjórnarskránni eru umdeild og þar skiptast menn í fylkingar eftir grundvallarafstöðu sinni til þess með hvaða hætti þeir vilja sjá þjóðfélagið byggt. En það er mjög ómaklegt að halda því fram að einhver einn flokkur fremur en annar við þessa umræðu vilji ekki með neinum hætti gera breytingar á stjórnarskrá Íslands.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að ná þeim fram á ýmsum sviðum, og í því efni get ég tekið undir ýmislegt sem fram kemur í þessu frumvarpi þar sem eru listaðir upp í einum sjö eða átta liðum þau viðfangsefni sem til umfjöllunar eru. Fulltrúar okkar í allsherjarnefnd hafa í þeirri vinnu sem liggur til grundvallar frumvarpinu haldið þeim sjónarmiðum á lofti að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að gera ákveðnar breytingar á ákveðnum þáttum stjórnarskrár.

Þar hefur oft verið staldrað við þau atriði sem lúta að forsetaembætti, ríkisstjórn og Alþingi og samskiptum þessara aðila. Ég held að það sé ágæt samstaða um það meðal allra þeirra sem hafa tjáð sig um þetta í þeirri umræðu sem hér hefur staðið. Sömuleiðis vilja menn skýra ákvæði stjórnarskrár að því sem lýtur að dómstólum. Ég held, ekki síst í ljósi umræðunnar sem oft hefur komið upp um samstarf Íslands við önnur lönd — og þá tengi ég það þeirri einstöku umsókn um aðild að Evrópusambandinu sem núverandi hluti stjórnarliða stendur að heils hugar meðan annar hlutinn er örlítið skiptari í því — að það sé nauðsynlegt að taka upp í stjórnarskrána, miðað við það vit sem ég hef á að skýra ákvæði stjórnarskrárinnar, hvernig við bindumst samningum eða eigum samstarf við erlend ríki, og sérstaklega hefur þetta komið upp í tengslum við umræðu um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Ég vil einnig nefna hér ákvæði sem lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum. Sá flokkur sem ég er fulltrúi í, Sjálfstæðisflokkurinn, hefur iðulega talað því máli og meira að segja flutt um það tillögu að stjórnarskránni verði breytt á þann veg að sett verði inn í hana ákvæði er lúta að þjóðaratkvæðagreiðslum. Því miður hlaut sú tillaga ekki neinar undirtektir hér fyrir rúmu ári og hefði kannski betur verið fallist á þau sjónarmið sem þá voru sett fram. Svo var ekki og verkið bíður þar af leiðandi betri tíma.

Að lokum vil ég líka nefna atriði sem hefur verið umdeilt að innihaldi, þ.e. þau mál sem snúa að auðlindanýtingu, eignarhaldi yfir auðlindum o.s.frv. Flestir þeir sem rætt hafa þetta mál við þessa umræðu hafa haldið þeim sjónarmiðum á lofti að það sé nauðsynlegt að skýra ákvæði stjórnarskrárinnar að því leytinu til. Fulltrúar okkar í allsherjarnefnd hafa verið þeirrar skoðunar einnig, en svo deila menn kannski um innihaldið í því eða hvernig útfærslan á að vera.

Þetta eru hin stóru mál sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur opnað á og telur nauðsynlegt að gera og koma inn í stjórnarskrá Íslands. Og um það virðist vera þokkaleg sátt og samkomulag á milli þeirra sem tjáð sig hafa um málið. Hvað stendur þá eftir? Af hverju er það ekki gert? Eflaust kann skýringin á því að vera sú að stjórnmálaöflin í landinu hafa á undanförnum árum ekki náð að vinna þá vinnu til enda, hvað svo sem hefur staðið í veginum fyrir því. Gerð er tilraun til þess í frumvarpinu að koma málinu í þann farveg að við sjáum til lands í þessum efnum. Ég skal fúslega viðurkenna að það er virðingarverð tilraun en ég tel hana ekki færa, ég sé á henni ýmsar ambögur sem ég á mjög erfitt með að sætta mig við.

Ég vil nefna sérstaklega að ég tel þá aðferð sem hér er viðhöfð, þ.e. að kjósa til stjórnlagaþings, þannig í útfærslu og verkefnið sett upp með þeim hætti að ég tel einboðið að standa gegn þeim ákvæðum sem þar eru sett fram. Þetta er gert undir þeim formerkjum að verið sé að opna leið til þess að þjóðin komi að samningu stjórnarskrárinnar. Það er gott. Með öðrum orðum, ég deili þeim skoðunum að nauðsynlegt sé að gera það með einhverjum hætti þannig að þjóðin geti haft tækifæri til að segja álit sitt eða koma fram með tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Ég deili skoðunum með þeim sem flytja frumvarpið í þessum efnum.

Aðferðin sem lögð er til hugnast mér ekki. Ég sé það fyrir mér eins og þessi uppsetning er að þetta geti leitt til stórra vandræða, ekki það að ég treysti ekki því fólki sem hugsanlega á að taka að sér þessi verkefni eins og hvíslað hefur verið að mér þegar þetta hefur verið rætt utan þessa salar. Þvert á móti held ég og ég geng að því verki þannig að flestu fólki sé treystandi til góðra verka. En uppsetningin á þessu máli er með þeim hætti að hér er ætlað að vinna þetta þannig að fólk efni til stjórnlagaþings sem skipað er 25–31 fulltrúa sem kosinn er í kosningu af allri þjóðinni. Í þetta verkefni á að verja einhverjum fjárhæðum, sumir hafa nefnt töluna allt upp í 600 millj. kr. Látum það liggja á milli hluta hversu dýrt þetta er eða ódýrt, það er meiri ástæða til að spyrja um árangurinn af verkinu og forminu.

Ég sé fyrir mér að það geti vel komið til þess að vandræði verði við að framkvæma þetta. Hafa menn tilfinningu fyrir því hversu margir einstaklingar vilja gefa kost á sér til þessara starfa? Ég hef ekki hugmynd um hver áhuginn er á því að koma að þessu. Það er opið öllum að gefa kost á sér. Og þótt ekki væri nema fyrir vandræðin við að búa til þokkalega skynsamlegan og góðan kjörseðil held ég að það geti flækst fyrir fólki. Og þótt ekki væri nema fyrir það eitt að hér er um að ræða launaða vinnu í ástandi sem allir þekkja og horfa til er mikið atvinnuleysi og menn sækja eðlilega til verka sem kunna að gefa þeim færi á hvoru tveggja að koma á framfæri skoðunum sínum en ekki síður að hafa lífsviðurværi.

Ég spyr líka um það hlutverk sem þjóðinni er ætlað í þessu verki, að kjósa sér 25–31 einstakling á fullum launum við það að forma tillögu sem kemur síðan inn til Alþingis og þar upphefst sama rifrildið. Ég hef tekið undir þau sjónarmið sem komu fram hjá 1. minni hluta allsherjarnefndar um að þetta verði unnið með þeim hætti að kjörin verði til verka nefnd sérfræðinga. Ef ég man rétt leggja þau til að þetta verði níu manna nefnd sem vinni úr þeim gögnum, þeim upplýsingum, þeirri þekkingu sem fyrir er á málinu, hvort tveggja úr sögu okkar og einnig úr þeirri umræðu sem hér liggur fyrir, og vinni upp í hendurnar á þjóðinni með einhverjum hætti tillögur eða frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Síðan er hægt að bera það undir þjóðina og fá þar álit, í hvaða formi svo sem það væri, og í því formi kæmi þetta inn til Alþingis. Mér finnst umbúnaðurinn eins og hann er hérna ekki hæfa því formi sem ég vil hafa á þessu máli.

Því hefur verið haldið fram hér að þessi vinna sé nauðsynleg til að skapa traust og virðingu fyrir Alþingi, þetta sé grundvallaratriði í því verki að þessi stofnun, löggjafarsamkundan, geti endurheimt traust sitt og virðingu hjá þjóðinni. Ég fellst ekki á að það gerist með þeim hætti að Alþingi framvísi með einhverjum hætti, eins og hér er lagt til, umboði sínu til þessa svokallaða stjórnlagaþings sem á, eins og hér var lýst í ágætri ræðu í gær, að verða einhvers konar eftirlíking af löggjafarsamkundu landsins. Ég tel það einfaldlega ekki við hæfi og hef einnig efasemdir um að sú vinna muni skila okkur því sem við þurfum.

Ég hef ekki heyrt mikið fara fyrir í umræðu í tengslum við þetta mál hugleiðingum hv. þingmanna um það efni hvernig þeir sjái fyrir sér væntanlega kosningu í tengslum við það ef einhverjir kunna að gefa kost á sér til setu á stjórnlagaþingi, ég nefndi fjöldann hér áðan, hvaða þættir það væru sem mundu ráða kjöri inn á þingið, hvernig frambjóðendur mundu móta sér afstöðu o.s.frv. Ég held að það verði mjög einkennilegt þegar við sjáum á sama tíma að Alþingi, með því að staðfesta frumvarpið eins og það liggur fyrir, er búið að gefa ákveðna forskrift að stefnumálum frambjóðenda inn á stjórnlagaþing. Í 3. gr. frumvarpsins og með þeim tillögum sem þar fylgja er í rauninni væntanlegum frambjóðendum sett forskrift að því, kvitt og klárt, með hvaða áherslu þeir ganga til kosninga í kjörinu til stjórnlagaþings, þ.e. með öðrum orðum er Alþingi með staðfestingu þessa frumvarps búið að takmarka umboð þeirra til þess að hafa skoðanir á stjórnarskránni að öðru leyti. Undir þeim skilmálum sem þarna eru tilgreindir verða þessir væntanlegu frambjóðendur og væntanlegu fulltrúar á stjórnlagaþingi að sitja og ég vil ekki una því.

Ég vil aðeins nefna þann kostnað sem þessu verklagi öllu fylgir og áður en ég nefni það vil ég undirstrika það mjög skýrt að ég er alveg tilbúinn til að verja háum fjárhæðum í að vinna vandaða vinnu við það verk sem hér liggur fyrir, þ.e. endurskoðun á stjórnarskrá Íslands. Ég get hins vegar ekki komist hjá því að nefna það við þessa umræðu, einfaldlega vegna þess að þetta er ekki fyrsta málið sem við fáum í þingsal sem gerir ráð fyrir verkefnum, ýmsum þörfum, misþörfum og misgóðum að vísu, en hér er um að ræða enn eitt málið sem gerir ráð fyrir verkefnum sem við höfum ekki fjármagnað. Við erum sífellt að fást við mál í sölum Alþingis sem gera ráð fyrir því að við tökum að láni fé til að koma af stað ákveðnum þörfum verkefnum. Og með fullri virðingu, ég undirstrika það, með fullri virðingu fyrir verkefninu vil ég nálgast þetta einnegin út frá því sjónarmiði að virðingin fyrir því að okkur sem hér störfum ber skylda til að sjá svo um að sjóður allra landsmanna eigi fyrir nauðþurftum fólks í landinu er hverfandi. Við erum sífellt að taka út úr þessum margumtalaða gleðibanka en svo vill bara til að hann er tómur. Það er grundvallaratriðið í mínum huga núna á þessum tímum og stærsta málið sem við stöndum frammi fyrir er að ná tökum á fjármálum ríkisins. Meðan við höfum ekki náð þeim tökum erum við vart tæk til þess að stýra landinu svo eitthvert vit sé í.

Þetta vildi ég sagt hafa, einfaldlega vegna þess að það er tiltölulega stutt síðan að ég var hér í ræðu um lokafjárlög ársins 2008, sem er í margra hugum komið langt aftur í fyrri tíð. Og þó að ekki séu nema tvö ár frá árinu 2008 tæpast liðin kemur ágætlega fram í því frumvarpi að lokafjárlögum sem þar lá fyrir hversu alvarleg staðan er og menn eru einfaldlega ekki að horfast í augu við það enn þá. Því nefni ég þessar kostnaðartölur. Þar kemur fram að á árinu 2008 jukust langtímaskuldir ríkissjóðs um 657 milljarða kr. og frá því herrans ári má gera ráð fyrir því að skuldirnar miðað við fjárlög ársins 2009 og útkomu þeirra og fjárlög ársins 2010 muni skuldirnar verða komnar upp í 1.500 milljarða kr. Þó að 500 milljónir eins og hér er nefnt sé ekki stór tala í því leggur hún inn með öllum hinum. Því mun ég aldrei þreytast á að nefna þessa staðreynd, að meðan við höfum og erum ekki enn búin að ná tökum á ríkissjóði, fjármálum ríkisins, hefur það að mínu mati afskaplega takmarkaðan tilgang að ræða aðra þætti vegna þess að við höfum ekki tryggingu fyrir því að koma þeim í framkvæmd.