138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka Valgerði Bjarnadóttur andsvarið og gleðst hjartanlega yfir því hvað við eigum margt sameiginlegt í þessu máli þótt vissulega sé eitt stórt atriði sem skilur okkur að í því, sem er hugmyndin um stjórnlagaþingið. Vissulega er það rétt hjá hv. þingmanni að lokasetningin í 3. gr. opnar á víðara umboð til stjórnlagaþingsins en engu að síður er í þeim sex liðum sem þarna eru taldir upp, auk þeirra tveggja sem bætt er við í nefndarálitinu, verið að ramma þetta mjög skýrt inn. Þetta eru ákveðin fyrirmæli og í þeim felst ákveðin binding. Um það getum við í sjálfu sér ekki deilt en vissulega skal ég taka undir þá athugasemd hjá hv. þingmanni að síðasta setningin opnar væntanlega á víðara umboð kjörinna fulltrúa ef af þessu stjórnlagaþingi verður.

Ég fagna því líka að hv. þingmaður deilir með mér áhyggjum af stöðu ríkissjóðs og vænti þess að hún leggi mér lið í því að berja á því máli áfram, ekki veitir af. Allt þetta leggst inn í þennan sama stóra pott og það er enginn hörgull, því miður, á málum sem eru að koma hér inn sem eru því marki brennd að ekki er búið að fjármagna þau. Ég skal alveg játa að ég skelfist þá hugsun pínulítið í ljósi þeirrar stöðu sem fjármál ríkisins eru í að skilningur þeirra sem semja þessi frumvörp liggur ekki fyrir, að því er mér virðist, af hvaða ástæðum svo sem það er. Hugsunin í þeim efnum verður að vera ríkari í þá veru (Forseti hringir.) að þetta falli allt í sama pottinn.