138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[18:57]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að 1.000 milljónir eru miklir peningar (Gripið fram í.) og þeim peningum verður ekki varið í neitt annað. Skilyrði eða ákvæði í samningnum milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og ríkissjóðs eða Íslands kveða á um að svo og svo miklu sé eytt en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skiptir sér ekki af því í hvað er eytt. Aftur á móti er algjörlega ljóst að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mun gera athugasemdir ef á að bæta þessu við samninginn þannig að ríkisstjórn Íslands hefur ekkert annað úrræði en að minnka útgjöld einhvers staðar annars staðar. Það er alveg hægt að ímynda sér það að ef við t.d. lokum einni deild á Landspítalanum gætum við sparað kannski, segjum 1.000 milljónir, og notað þær í stjórnlagaþingið.

Þetta með þekktu andlitin: Það er alveg hárrétt athugað að þeir sem eiga greiðastan aðgang að hjarta kjósenda eru þekktu andlitin þannig að það gæti vel verið að týpurnar sem ríkisstjórnin vill fá í þetta, fólk sem hefur mikla reynslu úr fræðaheiminum, úr lögfræði og öðru, sækist alls ekki eftir því heldur verði það skemmtikraftar og íþróttahetjur og aðrir álíka. Það gæti vel hugsast.