138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

stjórnlagaþing.

152. mál
[19:08]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson taldi eiginlega að ég væri að reyna að koma galdraorði, seiðkarlaorði, á hagfræðistéttina og eins og góðum galdramanni sæmir bar hann af sér galdraorðið og ekki skal ég standa í deilum við hann út af því.

Varðandi þær kosningar sem gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, á stjórnlagaþing, þá hef ég stórkostlegar áhyggjur af því. Ég tel kosningar ekki vera neina sérstaka kraftbirtingarmynd lýðræðisins, rétturinn til að kjósa er heilagur og óaðskiljanlegur hluti frá lýðræðinu. En lýðræðið gengur út á allt aðra hluti, kosning er bara aðferð til að ná niðurstöðu. Að byrja þetta ferli á því að ætla að ná einhverri niðurstöðu með því að kjósa stjórnlagaþing, sem veit ekkert hvað það á að gera annað en bara laga stjórnarskrána, skrifa nýja stjórnarskrá, finnst mér svipað og að senda hóp af mönnum út í óbyggðir án þess að láta þá hafa nesti, landakort eða segja þeim yfirleitt hvaða erindi þeir eigi þangað annað en bara að anda að sér fersku lofti. Ef það á að halda stjórnlagaþing þarf að undirbúa það almennilega að mínu mati. Stjórnlagaþing getur farið fram með öllum mögulegum hætti, bæði með kjörnum fulltrúum og eins með frjálsum aðgangi allra landsmanna sem ég tel vera lýðræðislegast og best.