138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[20:40]
Horfa

Frsm. minni hluta menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Frú forseti. Ég óskaði eftir því eftir 2. umr. að fá að taka inn þetta mál um framhaldsskólana í ljósi þess að þá hafði borist óumbeðin umsögn frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga um málið. Í 2. umr. var rætt um þessa umsögn og þær ábendingar sem komu fram í henni. Svo að ég rifji aðeins upp um hvað þetta mál fjallar, það liggur svo sem ekki beint í orðunum, þá eru þarna lagðar til ákveðnar breytingar um framhaldsskóla. Tilgangur frumvarpsins er að veita ríkisvaldinu svigrúm sem það þarf vegna fjárskorts, þeirra erfiðleika sem ríkið er núna í, til að efna ekki ný lög um framhaldsskóla og bregðast við ýmsum öðrum þáttum sem fundið hefur verið að í nýju lögunum.

Þegar lögin voru samþykkt var þetta hluti af mjög metnaðarfullu framtaki hjá fyrrum menntamálaráðherra um að setja heildstæða rammalöggjöf um hin ýmsu skólastig í landinu, leikskóla, grunnskóla, framhaldsskólana og háskólana, símenntun líka. Eins og við vitum öll er framhaldsskóla- og háskólanám á verksviði ríkisins en leikskólar og grunnskólar voru fluttir yfir til sveitarfélaganna fyrir þó nokkrum árum. Þrátt fyrir að þetta hafi verið flutt yfir til sveitarfélaganna hafa afskipti ríkisvaldsins af starfsemi leik- og grunnskóla verið mjög mikil og oft hafa jafnvel vaknað upp spurningar hjá sveitarstjórnarmönnum hvort þeir fari í raun og veru með stjórn þessara skólastiga eða ekki.

Líkt og íslenska ríkið eiga mjög mörg sveitarfélög í miklum fjárhagsörðugleikum og var það ástæðan fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga sá ástæðu til að senda inn umsögn. Þar er bent á að þó að Samband íslenskra sveitarfélaga sé ekki að gera athugasemdir við þær breytingar sem hæstv. menntamálaráðherra leggur hér til hefði það talið að samhliða hefði þurft að leggja fram frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla. Fulltrúar sambandsins og sveitarfélög hafa ítrekað óskað eftir því við ráðherrann að slíkt frumvarp verði lagt fram og komið með skýrar tillögur og unnið að útfærslu þess með sérfræðingum ráðuneytisins. Því miður hefur komið fram sú afstaða hjá ráðuneytinu að það hyggst ekki beita sér fyrir þessum breytingum eða aðstoða sveitarfélögin nema fyrir liggi sátt um málið milli sambandsins og Kennarasambands Íslands. Viðræður milli þeirra aðila hafa ekki leitt til annarrar niðurstöðu en þeirrar að Kennarasambandið er ekki tilbúið til neinna breytinga. Þess vegna telur sambandið sem sagt óhjákvæmilegt að óska eftir því að menntamálanefnd, þar sem ráðuneytið ætlar sér ekki að gera neitt frekar, leggi fram sérstakt frumvarp um breytingar á lögum um grunnskóla.

Ég hef svo sem nefnt það áður að það hefur vakið furðu hjá mér að maður hefur fundið ákveðna ákvörðunarfælni hjá ráðherra menntamála og það svo sem kannski ekki bara hjá þeim ráðherra heldur jafnvel hjá fleiri ráðherrum. Menn hafa ekki verið tilbúnir til að skoða heildstætt hvernig við getum hagrætt hjá okkur. Menn hafa frekar valið að fara í flatan niðurskurð í staðinn fyrir að reyna að forgangsraða í ráðuneytum sínum og þvert á ráðuneyti.

Ég vona svo sannarlega að við sjáum breytingar hvað það varðar þegar við sjáum næsta fjárlagafrumvarp koma hingað inn í þingið 1. október.

Í umsögninni bendir Samband íslenskra sveitarfélaga á ýmsar leiðir til að koma til móts við erfiðan fjárhag sveitarfélaganna, svo sem með tímabundnum heimildum til frávika frá ákvæðum grunnskólalaga um vikulegan kennslutíma eftir bekkjardeildum og eins að meðaltali. Eins um fjölda skóladaga nemenda, fjölda valgreina á unglingastigi, hlutfallslega skiptingu á milli námssviða og námsgreina og að lokum nám grunnskólanemenda á framhaldsskólastigi.

Það var mikið áfall fyrir marga nemendur og foreldra og líka sveitarfélög þegar ráðuneytið tók við síðustu fjárlagagerð einhliða ákvörðun um að leyfa ekki nemendum grunnskóla að stunda nám í einstökum áföngum í framhaldsskólum þrátt fyrir heimild um það í 26. gr. grunnskólalaganna. Sambandið bendir líka á að eðlilegt væri, líkt og er í þessu frumvarpi varðandi framhaldsskólana, að leyfa skólastjóra grunnskóla að veita forstöðu fleiri en einum grunnskóla. Síðan hefur líka verið bent á möguleikann á því að samþætta innra og ytra eftirlit í grunnskólum og eftirlit ráðuneytisins, en skv. 38. gr. laga um grunnskóla, nr. 91/2008, er sveitarfélögum skylt að taka upp ytra eftirlit.

Félagi minn, hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson, nefndi það í ræðu sinni að það er mjög mikilvægt, og það vill nefnilega ansi oft gleymast hjá okkur sem störfum hér á hinu virðulega Alþingi, að það er annað jafnrétthátt stjórnsýslustig í landinu, sveitarfélögin, og við þær aðgerðir sem við erum að grípa til verðum við að taka tillit til aðstæðna þeirra og þeirra krafna sem sveitarfélögin gera. Ef ráðherra menntamála treystir sér ekki til að leggja fram nauðsynlegar breytingar á annarri löggjöf um skóla í ljósi efnahagsástandsins þarf menntamálanefnd að íhuga vandlega hvort hún eigi ekki að gera það sjálf.

Þegar við tókum þetta mál núna inn á milli 2. og 3. umr., hvort það var deginum áður eða um leið og við vorum að greiða atkvæði um málið hér í þinginu, kom frétt í blöðum um að boðaðar breytingar hjá Menntaskólanum við Sund hefðu verið teknar til baka. Ekki var ljóst við lestur fréttarinnar eða við umræðu í nefndinni hvort frumvarpið væri ástæða þess að hætt hefði verið við boðaðar breytingar, en ég verð að segja að þessi tímasetning tilkynningarinnar og tilgreindar ástæður hljóta að teljast áhyggjuefni fyrir okkur sem sitjum í menntamálanefnd og okkur hér á Alþingi. Það er mjög mikilvægt að ekki sé verið að boða til breytinga á vegum skóla, auglýsa nám og fá umsækjendur að skólanum á grundvelli þeirra breytinga og draga þær síðan til baka nánast fyrirvaralaust.

Ég vona svo sannarlega að það tengist ekki beint þessari ákvörðun um að samþykkja þetta mál og hvet okkur hér til að skoða með opnum huga þessar tillögur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Það getur ekki gengið að við séum bara að hugsa um fjárhag ríkisins en skiljum hitt stjórnsýslustigið eftir með allan sinn vanda.