138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

framhaldsskólar.

578. mál
[20:55]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög, en ég verð þó að láta í ljós undrun mína vegna þess að menntamálanefnd Alþingis er búin að samþykkja og taka út breytingu á lögum og hefur frestað því að ákveðnir þættir í framhaldsskólalögum taki gildi, eins og frumvarp menntamálaráðherra gaf til kynna og við þekkjum hér, í það minnsta þeir sem í menntamálanefnd sitja. Þetta var gert vegna þess að fjármuni skorti til að fylgja því eftir, þannig kynnti hæstv. menntamálaráðherra frumvarpið.

Það kemur því, frú forseti, verulega á óvart að formaður menntamálanefndar upplýsi hér að framhaldsskóli á höfuðborgarsvæðinu hafi getað boðið kennurum við skólann 6,4% launahækkun ef þeir tækju til við að vinna við það kerfi sem þeir tóku þátt í að breyta og hafa boðið nemendum upp á og nemendur sótt skólann þess vegna. Þeir hafna síðan 6,4% launahækkun. Það vekur furðu. Það vekur líka furðu að þessi tiltekni framhaldsskóli — hann hlýtur að vera sérlega vel og skemmtilega rekinn — geti boðið kennurum sínum 6,4% launahækkun, á sama tíma og menntamálaráðherra kemur í þingið með frumvarp um að fresta því að ákveðnir þættir í framhaldsskólalögunum taki gildi vegna fjárskorts.

Frú forseti. Það er eitthvað í þessu dæmi sem ekki passar.