138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

efling græna hagkerfisins.

520. mál
[21:06]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi tillaga gengur í kjarna sínum út á tiltölulega einfaldan hlut, að skapa græn störf á Íslandi. Í skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna eru græn störf skilgreind sem störf í landbúnaði, iðnaði, þjónustugreinum og stjórnsýslu sem stuðla að varðveislu eða endurheimt náttúrugæði. Í greinargerð tillögunnar eru nefnd dæmi um atvinnugreinar sem falla undir þessa skilgreiningu. Aðalatriði málsins er að hugmyndin og ákallið um sjálfbæra þróun á erindi við allar atvinnugreinar.

Iðnaðarnefnd ræddi talsvert þennan þátt í umfjöllun sinni um málið og vill árétta mikilvægi hugmyndafræðinnar um sjálfbæra þróun sem felur í sér samþættingu á efnahagslegum, samfélagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum, þar með talið sjónarmiðum umhverfisverndar við mótun efnahags- og atvinnustefnu.

Gjarnan er vísað til þess að hugtakið sjálfbær þróun komst í hámæli í tengslum við skýrsluna „Our common future“ sem kom út árið 1987 og Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hafði forustu fyrir. Þar er sjálfbær þróun fólgin í því að uppfylla þarfir fólks án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að uppfylla þarfir sínar. Kjarni þessarar hugmyndafræði er sá að ekki sé gengið óhóflega á forða náttúrunnar heldur séu auðlindir hennar nýttar á ábyrgan og hófsaman hátt og þá helst þannig að hún fái að endurnýja sig.

Annað sem felst í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda er að þær skulu ekki nýttar á þann hátt að af hljótist mengun eða að umhverfinu sé spillt á annan hátt. Í samræmi við þetta var eitt af meginmarkmiðum loftslagsráðstefnunnar í Rio de Janeiro í Brasilíu að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Sem kunnugt er hefur baráttan við loftslagsvandann verið eitt af helstu viðfangsefnum stjórnmálanna á Vesturlöndum undanfarna áratugi.

Þó að hugtakið sjálfbær þróun hafi fyrst komið fram árið 1987 er hugsunin mun eldri. Í umsögn Vesturlandsskóga sem okkur barst um tillöguna er vakin athygli á þessu og vísað til þess að þýski skógfræðingurinn Hans Carl von Carlowitz hafi í byrjun 18. aldar notað þessa sömu hugmynd til að vekja athygli á því hvernig nýta mætti skóg án þess að eyða honum. Iðnaðarnefnd er sammála þeim ábendingum sem komu fram hjá nefndum umsagnaraðila um að mikilvægt sé að nefndin sem skipuð verður af Alþingi fjalli sérstaklega um hlut skógræktar í sjálfbærri þróun og eflingu græna hagkerfisins.

Að lokum vil ég árétta að með þessari tillögu er Alþingi að taka að sér mikilvægt stefnumótunarhlutverk í stað þess að vísa verkefninu til framkvæmdarvaldsins eins og hefð er fyrir. Í því felast mikilvæg skilaboð um að löggjafinn þarf í ríkari mæli að taka sér stöðu með mótun pólitískrar stefnu. Á þeim grundvelli erum við hér á þinginu. Við erum kosin til trúnaðarstarfa í þágu þjóðarinnar og það ætti að vera hlutverk þingsins í mun ríkari mæli að móta stefnu til framtíðar í stað þess að framselja það mikilvæga hlutverk í hendur embættismanna Stjórnarráðsins.

Ég vil þakka þá þverpólitísku samstöðu sem náðst hefur um þetta mál og hlakka til þess að vinna með fulltrúum allra flokka að framgangi þess.