138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

olíugjald og kílómetragjald.

531. mál
[21:50]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að útskýra fyrirvara minn við þetta frumvarp.

Fyrir nokkrum árum þegar litaða olían var tekin upp var mjög mikið rætt um hvaða leiðir væru færar til að mæla notkun manna á vegum vegna þess að olíugjaldið og kílómetragjaldið og aðrir skattar sem þá voru í gildi voru fyrst og fremst hugsaðir til að afla Vegagerðinni tekna svo hún gæti rekið og byggt þjóðvegi og vegi. Þetta er hugsað sem eins konar þjónustugjald. Þá var mikið rætt um þau nýmæli sem fyrirhuguð voru í Evrópusambandinu árið 2011 að taka upp GPS og SMS-skilaboð sem gætu látið vita af því hvar bíllinn væri staddur hverju sinni og hvaða vegi hann væri að nota og hægt er að fá margar fleiri upplýsingar, um hraða o.s.frv. Það var hætt við þetta á sínum tíma, ekki af tæknilegum ástæðum, heldur vegna þess að persónuvernd var ekki tryggð. Það er náttúrlega dálítið stórt skref að einhver opinber aðili geti séð nákvæmlega hvar bíllinn manns er staddur.

Ég held að menn ættu að hafa það í huga eins fljótt og hægt er hvort persónuverndin sé leyst, vegna þess að það hefur töluverða kosti, þá væri t.d. hægt að taka lægra gjald fyrir notkun á malarvegum, lægra gjald fyrir notkun á vegum sem eru snjóþungir og hægt er að hafa mismunandi gjöld eftir því hvort álagstímar eru eða ekki. Það er hægt að mæla notkun á bílastæðum og ekki þarf að hafa neina stöðumælaverði og enga stöðumæla yfirleitt. Hægt er að mæla notkun á jarðgöngum og þvílíku, þannig að möguleikarnir eru mjög miklir. Þá verður eiginlega ekki hægt að stela bílum eftir að þetta kerfi er komið upp vegna þess að eigandinn getur að sjálfsögðu fengið að vita hvar bíllinn er staddur ef honum hefur verið stolið eða ef eigandinn skyldi hafa gleymt honum á bílastæði eitthvert kvöldið. Þannig að ýmsir kostir eru við þetta kerfi. En ókostirnir eru þeir að gífurlegar upplýsingar safnast saman um einstaklinga og það þarf að leysa. Þetta var rætt á sínum tíma.

Það sem menn eru að gera hér er svona eiginlega það sem skattgreiðandinn eða skattsvikarinn og skattyfirvöld eru alltaf að togast á um, hver er á undan. Skattsvikarar hafa komist að því að hægt er að taka olíu á vissri dælu sem illa sést til og það sem ég hélt að yrði aðalatriðið og til þess væri olían lituð var að fylgst yrði með því hvort lituð olía sé í tönkum á bílum, en það eftirlit virðist vera í skötulíki. Maður fer því að velta fyrir sér til hvers olían sé eiginlega lituð. Hún var einmitt lituð til þess að hægt væri að fylgja því eftir hvort hún væri notuð á bíla eða ökutæki sem ekki mega nota litaða olíu.

Það sem menn eru að gera hér er að bregðast við þessu. Ég er með fyrirvara vegna þess að mér finnast þetta vera frekar fátækleg viðbrögð og hef svo sem bent á það að menn geti bara keyrt inn í næsta bílskúr, tveir jeppar, og dælt á milli, eða traktor eða bátur o.s.frv. Því miður eru margar leiðir til að svíkja undan þessu kerfi ef menn eru ekki í því að athuga hvort olían sé lituð. Við fengum upplýsingar um það að það yrði of dýrt, þannig að ég held að við þurfum að huga að því fyrr en seinna annaðhvort að ala þjóðina upp í heiðarleika — sem væri náttúrlega æskilegast, menn væru ekkert að svindla og auðvitað eiga menn ekki að svindla — eða að taka upp hitt kerfið, sem mér skilst að verði tekið upp í Evrópusambandinu árið 2017 eða um það leyti, eða 2014, þar sem fylgst verður með notkun bíla. Það gefur miklu meiri möguleika eins og ég benti á hér áðan, ýmiss konar. Þá getum við leigt út vegi, eins og ríkisstjórnina dreymir um. Einhver getur leigt veginn austur fyrir fjall og svo má hann bara leggja á þau gjöld sem honum þóknast innan hæfilegra marka og þá getum við flutt Vegagerðina út úr ríkissjóði og einkavætt hana og kallað hana Vegagerðina hf. og hún á þá bara að hanna vegaspotta og svo eru vegagjöld til að standa undir kostnaði við allt saman.

Þetta var sem sagt minn fyrirvari.