138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[22:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það kemur mér ekki á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal spyrji um þetta. Hann þekkir söguna allvel og veit miklu betur en ég hvernig staðið var að málum þannig að það er kannski réttara að hv. þingmaður svari því sjálfur hverju eigi að svara og hvers vegna stöðugur halli varð á þessu því að þetta gerðist löngu fyrir minn tíma á Alþingi. Það sem hefur einmitt breyst er að vegna þessarar sögu hafa menn nálgast verkefnið með öðrum hætti. Í fyrsta lagi, eins og ég sagði áður, með því að stofna formlegt félag um þetta þannig að það sé lögformlega sett inn í þingið. Í öðru lagi með því að kalla eftir viðbótargögnum og tryggja það að Alþingi komi að málinu þegar fyrir liggur tilboð í bygginguna hvað varðar einmitt hönnun, allan kostnað í kringum bygginguna, byggingarkostnaðinn og fjármögnunina. Þegar þetta liggur fyrir ásamt útreikningum á því með hvaða hætti eigi að spara, sett niður í smáatriðum, sem raunar er þegar búið að gera, nánast niður á nöfn inni í þessum spítölum — þegar þetta liggur fyrir eftir tvö ár þá munum við geta endurmetið það og Alþingi farið yfir það, fjárlaganefnd á þeim tíma, og tekið endanlega ákvörðun. Þetta hefur breyst frá því sem áður var. Svo geta menn haft efasemdir um að þetta muni standast en það er einmitt verið að reyna að vanda ferlið og gera betur en áður hefur verið gert vegna fenginnar reynslu af ýmsum öðrum byggingum og með allt öðruvísi lagaumhverfi eða réttara sagt umbúnaði um verkefnið en áður hefur verið. Ég bind miklar vonir við að það dugi og vona að þessi vinnuaðferð reynist farsæl fyrir ríkið.