138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[22:23]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona sömuleiðis að þessar áætlanir standist. En það sem ég er að velta fyrir mér er að það virðist eiga að rísa risastór bygging og það er eins og enginn eigi að borga hana, það er eins og hún hafi bara dottið af himnum ofan og guð almáttugur hafi af rausnarskap sínum gefið íslensku þjóðinni þetta í kjölfar kreppunnar. Ég held að það verði alltaf skuldbinding ef áætlanir ekki standast. Segjum að gera eigi nýjar áætlanir áður en ráðist verður í endanlega byggingu eins og menn ætla að gera eftir 2–3 ár og þá séu gerðar nýjar áætlanir en það eru líka áætlanir, svo kemur raunveruleikinn þegar flutt er inn í húsið og engar áætlanir standast vegna þess að þetta eða hitt eða eitthvað gerðist. Þá lendir það að sjálfsögðu á ríkissjóði. Fjármálaráðherra framtíðarinnar getur ekki hætt að borga þessa leigu þó að forsendur um sparnað gangi ekki eftir. Hann skal sko borga þannig að þetta er skuldbinding á ríkissjóð. Ég vil að menn fari að sýna þann aga í fjárlögum ríkisins að þeir sýni skattgreiðendum framtíðarinnar hvað bíði þeirra.

Mér finnst allt í lagi að byggja spítala og mér finnst meira að segja 30 milljónir ósköp hógvært miðað við þær 130 milljónir sem dæmið var komið upp í árið 2007, (GuðbH: Milljarða.) milljarða já, það er von að maður ruglist á þessu. En sem sagt, 2007 var þetta komið upp í 130 milljarða í flottræfilshættinum. Nú er þetta komið niður í þokkalega 30 milljarða og kannski er það mjög skynsamlegt. En ég vil að menn bókfæri það bara: Það er ríkið sem borgar þetta, það er ríkið sem byggir þetta og það er enginn annar sem kemur að þessu og þó að það heiti ohf. eitthvað þá breytir það engu fyrir mér.