138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég átta mig ekki alveg á hvað hv. þingmaður meinar með því að segja að það eigi að bókfæra þetta. Það er akkúrat það sem er í þessum tillögum, að þetta verði bókfært þegar menn taka við verkinu og taka það í notkun, að þá verði öll upphæðin bókfærð á ríkissjóð. Þannig er tillagan og það er mikil breyting. Við erum einmitt með skuldbindingar annars staðar sem hafa ekki verið bókfærðar, að vísu eru þær ekki komnar í notkun. Þetta er samkvæmt þeim tillögum sem hafa komið að mati okkar bestu sérfræðinga sem hafa leiðbeint okkur í fjárlaganefnd þannig að það er ekki verið að reyna að fela neitt. Ég held að það sé alveg rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal segir að það sé auðvitað mjög mikilvægt að áætlanir standist. Það hefur náðst verulegur árangur í því akkúrat í augnablikinu eftir hrunið, sem betur fer, varðandi m.a. rekstur Landspítalans. Við skulum vona að því fylgi áframhaldandi agi.

Eitt af því sem hér hefur einmitt verið talað um og var gert í undirbúningsvinnunni og verður að gera mun ítarlegar áður en endanleg ákvörðun verður tekin er að leggja fram hvernig menn ætla að ná fram sparnaði, í hverju sparnaðurinn felst, þannig að menn geti fylgst með því hvort árangur hafi náðst í samræmi við það sem var en séu ekki með einhverjar heildartölur heldur sé það hreinlega sundurliðað hvaða árangri eigi að ná í hverjum lið fyrir sig.

Einhver orðaði það svo í umræðunni í fjárlaganefnd að mesta óvissan í þessu verki væru stjórnmálamennirnir. Það er auðvitað mikið til í því vegna þess að þegar kemur að því að borga geta menn verið búnir að ákveða að bæta við þjónustuna á Landspítalanum eða breyta með einhverjum öðrum hætti eða fylgja ekki eftir þeirri arðsemi sem lagt var upp með í byrjun. Við getum ekki séð það fyrir en okkar verður, þ.e. þeirra sem verða á Alþingi eftir tvö ár, að leggja mat á þær forsendur sem gefnar verða og taka ákvörðun út frá þeim gögnum sem þá eru orðin nákvæmari af því að nær er komið verkinu og komið er raunverulegt tilboð í stað þess að reyna nú að reikna okkur fram og til baka með plús/mínus 15–20% skekkju sem verður aldrei nákvæm á þessu stigi.