138. löggjafarþing — 134. fundur,  9. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[23:35]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hægt að reikna það nánast upp á sentimetra hvar staðarvalið ætti að vera þannig að fólk sem lendir í slysum eða skyndiveikindum, hjartastoppi eða öðru slíku komist stystu leið á sem stystum tíma inn á þann stað. Þetta er bara hægt að reikna og líka út frá flugvellinum.

Svo vil ég benda á að við spítalann í Fossvogi er flugvöllur fyrir þyrlur. Að sjálfsögðu verður það líka við þennan nýja spítala hvar sem hann rís. Svo mætti náttúrlega hafa hraðar samgöngur frá nýja flugvellinum þegar hann verður byggður annaðhvort á Lönguskerjum eða Álftanesi eða einhvers staðar annars staðar og þá mætti hafa hraðbraut inn að þeim spítala, það mætti gera ráð fyrir því. Ég geri ráð fyrir því að menn fari bráðum að skipuleggja framtíðina hérna í Reykjavík þannig að menn viti hvað standi til.

Ég sagði að Vatnsmýrin væri allt of dýrt land til þess að vera sett undir flugvöll, sérstaklega af því að það eru til nokkrir staðir hérna í kring sem er hægt að byggja flugvöll á. Ég held því að staðarvalið ætti að vera hérna einhvers staðar með tilliti til þess að sjúklingar geti náð þangað á sem skemmstum tíma og þá á ég við landsbyggðina líka. Það yrði bara reiknað út, svo og svo margir koma utan af landsbyggðinni í bráðatilfellum sem ekki koma með þyrlu og aðrir innan Reykjavíkursvæðisins þurfa að komast á sem skemmstum tíma. Það er hægt að reikna það nákvæmlega út.