138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

bygging nýs Landspítala við Hringbraut.

548. mál
[00:00]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um stofnun opinbers hlutafélags um byggingu nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Með frumvarpinu er verið að stofna hlutafélag um byggingu nýs landspítala við Hringbraut í Reykjavík. Þetta er verkefni sem við stöndum frammi fyrir. Til að geta tekið ákvörðun um að stofna hlutafélag til að undirbúa byggingu nýs spítala og byggja hann þarf Alþingi að byggja ákvörðun sína á þarfagreiningu og kostnaðargreiningu. Það má segja að þarfagreiningin hafi farið fram í nokkrum áföngum og nokkrum sinnum í gegnum árin. Kostnaðargreining hefur farið fram í sambandi við ákvarðanir sem teknar hafa verið um að fara í byggingu nýs Landspítala. Það er synd að þessi umræða skuli fara fram svo seint að kvöldi því að þetta er stórt og mikið mál. Þetta er stór ákvörðun sem við tökum og við erum ekki óbundin af því hvernig við förum í þessa byggingu ef við tökum þá ákvörðun á annað borð.

Ég tel að ekki sé undan því komist að gera miklar úrbætur fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús. Við getum ekki gert ekki neitt. Ef ekki er tekin sú ákvörðun að byggja nýtt sjúkrahús þarf að byggja húsnæði undir rannsóknarstofur og aðra starfsemi sem er núna í húsnæði sem er lekt og heldur ekki vindi og er á stöðugum undanþágum frá Heilbrigðiseftirlitinu að halda þar starfsemi, það húsnæði er mjög óhentugt. Við yrðum því alltaf að fara í byggingu til þess að ráða bót á brýnustu nauðsyn sjúkrahússins.

Við erum heldur ekki óbundin af því hvernig farið er í framkvæmdina. Við getum ekki farið út í slíka framkvæmd á þann hátt sem við höfum gert, að ríkissjóður standi undir framkvæmdinni. Vegna efnahagshrunsins og erfiðleika í ríkisrekstri sem við stöndum frammi fyrir verðum við að brúa það gat í fjárlögum þessa árs og næstu ára. Það rúmast ekki innan ramma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, þess ramma sem hefur verið settur fyrir fjárlagagerð næstu ára.

Lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir til að koma inn í verkefnið. Það verða þá að vera afmörkuð verkefni og verkefni sem gefa arð. Þetta er tilvalið verkefni fyrir lífeyrissjóðina að fjármagna. Það var ljóst þegar hinn svokallaði stöðugleikasáttmáli var gerður. Þetta verkefni er eitt af þeim verkefnum sem þar eru inni. Undirbúningur er hafinn að því að fara í þessa nýbyggingu. Ég tel að þó að það megi núna hafa efasemdir um hvort sú kostnaðargreining og úttekt sem hér liggur fyrir hafi verið nægileg, hvort við hefðum ekki þurft að leita til fleiri aðila og fá fleiri sjónarhorn og fleiri úttektir, þá tel ég að sú greining sem við höfum sé nægilega sterk og trygg til þess að við getum tekið þá ákvörðun að fara í þessa framkvæmd.

Árið 2005 var undirbúin bygging nýs spítala. Niðurstaðan eftir alþjóðlega samkeppni var mjög í anda 2007, eins og við köllum. Gert var ráð fyrir veglegri byggingu sem náði eiginlega yfir alla þá lóð sem ætluð er nýju sjúkrahúsi og nokkrir draumar látnir rætast í þeirri áætlun. Sú áætlun og greining sem liggur fyrir um þessa byggingu sem nú á að fara í er algjörlega sniðin við stakk. Það er eingöngu verið að byggja yfir það sem verður að byggja yfir, og ekkert umfram það. Ég held, ef eitthvað er, að komið geti til þess innan ekki langs tíma að hugsanlega þurfi að endurmeta áætlunina og halda áfram uppbyggingu svo að hagkvæmnin skili sér. Gert er ráð fyrir því að hægt sé að byggja áfram í áföngum og það er mikill kostur.

Það væri hægt að rifja hér upp sögu Landspítalans eftir sameiningu Borgarspítala og Landspítalans. Samkeppnin sem þar átti sér stað og var á milli sjúkrahúsanna sýndi að við höfðum kannski ekki efni á að vera með svo mikið framboð. Ágreiningur var líka um hvort fara ætti í sameininguna áður en búið væri að byggja það eina sjúkrahús sem þyrfti til að hýsa alla starfsemina svo hagkvæmt væri. Sjúkrahúsin voru samt sameinuð þótt starfsemin væri á tveimur stöðum. En það er alveg ljóst að hagkvæmnin skilar sér ekki í rekstri sjúkrahússins fyrr en það verður á einum stað. Það er mjög óhagkvæmt og dýrt að hafa skurðstofulínur á tveimur stöðum, rannsóknarlínur á tveimur stöðum o.s.frv. Hagræðingin kemur með byggingu og rekstri á einum stað.

Ég tel að það sem skipti máli sé næsta stig, ef við tökum þá ákvörðun að fara í bygginguna með þessum hætti, sem ég vona að verði — og þessi framkvæmd hefur fullan stuðning Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Á næsta stigi, þegar samkeppni hefur farið fram, búið er að bjóða út og útboðsgögn liggja fyrir og kostnaðaráætlun, þá kemur málið aftur til þingsins. Það verður þá metið út frá þeim forsendum sem við gefum okkur. Hugsanlega þurfum við að endurmeta þær forsendur, hvort krafan um hagkvæmni sameiningarinnar sé of mikil, að hún standi alfarið undir byggingarkostnaðinum. En lengra komumst við ekki að sinni. Hitt verður að koma í ljós þegar næsta skref er tekið og það verður þó nokkur vinna fyrir Alþingi að fara yfir þau gögn sem þá liggja fyrir. En ég tel að fjárlaganefnd hafi unnið vinnu sína vel og það sé í raun og veru ekki hægt að komast lengra að sinni. Ég vil því lýsa eindregnum stuðningi við frumvarpið og hvet til þess að farið verði í þessar framkvæmdir sem fyrst. En enn og aftur, þetta er það mikil framkvæmd að á öllum stigum þarf að vanda til verka og læra af reynslunni hvað varðar þau vinnubrögð sem hér hafa tíðkast í gegnum árin. Ég vil þar nefna sérstaklega tónlistarhúsið þar sem öllu var gefinn laus taumur. Það má ekki í þessu tilfelli.