138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

bólusetningar barna gegn pneumókokkasýkingum.

465. mál
[00:16]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil taka hér örstutt til máls um þetta mál þar sem ég er 1. flutningsmaður en að því standa fulltrúar úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi.

Varðandi pneumókokkasýkingar er rétt að rifja það upp að 95% barna á Íslandi fá eyrnabólgu, þetta er því miður alveg ótrúlega há tala. Það þekkist tæpast annars staðar að svona hátt hlutfall barna fái eyrnabólgur en 50% allrar sýklalyfjanotkunar hjá börnum eru vegna eyrnabólgu og við erum heimsmeistarar í að setja rör í börn, þriðja hvert barn á Íslandi er með rör í eyrunum. Það er með ólíkindum hve stórt vandamál er hér á ferðinni og því afar ánægjulegt að við séum að stíga það skref hér að hefja bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum barna. Pneumókokkar eru einn af aðalorsakavöldum eyrnabólgu, geta reyndar líka valdið öðrum sýkingum, blóðsýkingum, heilahimnubólgu og öðrum slíkum sýkingum þannig að þetta er brýnt verkefni.

Ég vil líka minna á að öll Norðurlöndin hafa nú þegar tekið upp þessar bólusetningar og reyndar 24 lönd, þannig að það var tímabært að stíga þetta skref og ég er afar ánægð með að við séum að lenda þessu máli.

Ég vil líka draga það fram, af því að ég sagði í ræðu minni rétt áðan varðandi nýbyggingu Landspítalans sem við vorum að ræða, að það væru nýir tíma hér á Alþingi. Mér finnst rétt að draga það fram, sérstaklega í ljósi þess að endurvekja þarf traust á Alþingi, að það eru nýir tímar á Alþingi. (PHB: Góð stjórnarandstaða.) Stjórnarandstaðan er góð, það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. En við erum líka að bæta hér vinnubrögðin. Við ræddum Landspítalann, þar voru vinnubrögðin í fjárlaganefnd til fyrirmyndar og þingið er að taka það mál inn aftur og mun hafa meiri tök á því en tíðkaðist hér áður fyrr með framkvæmdir af svipuðum toga.

Ég vil draga það fram að bæði þetta mál og næsta mál sem við fjöllum um, sem eru bólusetningar gegn HPV-smiti stúlkna sem getur valdið leghálskrabba, eru þingmannamál, koma hvorki frá hæstv. heilbrigðisráðherra né ríkisstjórn, þessi mál eru sprottin upp hjá þingmönnum. Í öðru tilvikinu frá þeirri er hér stendur, sem er úr stjórnarandstöðu, og í hinu tilvikinu frá Steinunni Valdísi Óskarsdóttur.

Hvenær eru þau lögð fram? Jú, það mál sem við ræðum nú var lagt fram 15. mars. Það er ekki langt síðan, það eru tæpir þrír mánuðir. Það var mælt fyrir því 27. apríl og nú er það að fara í gegnum síðari umr. og yfirgnæfandi líkur á að við samþykkjum það, jafnvel á morgun, og göngum frá því með þverpólitískum stuðningi. Það eru allir flokkar á þessu, það vilja allir gera þetta. Þetta kostar peninga en þetta er sparnaður til lengri tíma og mikilvægt fyrir börnin okkar og er kostnaðarhagkvæmt. Ég vil líka minnast á það að hitt málið sem við ræðum hér á eftir var lagt fram 25. mars. Mælt var fyrir því 7. maí og við erum að fara í gegnum 2. umr. hér á eftir, og það verður líka samþykkt hér, kannski á morgun, með þverpólitískum stuðningi allra flokka. Það kostar líka peninga, bæði þessi mál kosta samtals yfir 200 milljónir, en sparnaðurinn verður meiri.

Ég vil draga þetta fram af því að þetta sannar að það eru nýir tímar hér á Alþingi, það eru ferskir vindar sem blása um Alþingi. Við erum að taka upp ný vinnubrögð, samþykkja þingmannamál í miklu meiri mæli en við höfum séð áður.

Ég minnist þess að á fyrsta kjörtímabili þeirrar sem hér stendur þótti það tíðindum sæta að hún fékk samþykkta þingsályktunartillögu á þriðja ári þess kjörtímabils. Það var tillaga um að auka hlut kvenna í stjórnmálum. Sú tillaga var lögð fram 23. mars 1998, mælt fyrir henni 22. apríl 1998 og hún var samþykkt 2. júní 1998. Það fór í gang verkefni sem var ætlað að auka hlut kvenna í stjórnmálum sem tókst mjög vel, en það þótti þá tíðindum sæta að óbreyttur þingmaður, eins og þá var kallað, fengi samþykkt mál — ekki í stjórnarandstöðu heldur í stjórnarflokki — á þriðja ári kjörtímabils síns, sem sagt á fyrsta kjörtímabili. Þetta var svo sjaldgæft þá.

Ég vildi draga þetta fram, virðulegi forseti, alveg sérstaklega sem sönnun þess — önnur sönnunin í kvöld má segja, sú þriðja er á eftir — að ferskir vindar blása um Alþingi. Við erum að samþykkja þingmannamál sem hafa fengið góða umfjöllun þrátt fyrir tiltölulega stuttan tíma og um þau ríkir þverpólitísk samstaða. Ég sé ástæðu til að segja: Til hamingju, Alþingi.