138. löggjafarþing — 134. fundur,  10. júní 2010.

bólusetning gegn HPV-smiti og leghálskrabbameini.

498. mál
[00:29]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu en ætla að segja hér örfá orð. Steinunn Valdís Óskarsdóttir er 1. flutningsmaður. að þessu máli og ég vil draga það sérstaklega fram að hún er mikill baráttumaður fyrir því að þessar bólusetningar gegn HPV-smiti ungra stúlkna verði teknar upp. Ég vil líka draga það fram að hún lagði mjög mikla vinnu í greinargerðina. Ég þekki það þar sem ég er 2. flutningsmaður á þessu máli, við erum nokkrir flutningsmenn með Steinunni Valdísi, sem var hér hv. þingmaður fyrir stuttu. Ef Steinunn Valdís hefði ekki lagt svona mikla vinnu í greinargerðina tel ég að málið hefði ekki farið í gegn núna svona hratt. Ég vil því draga það sérstaklega fram að það er verk Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur að við erum að samþykkja þetta mál hérna núna að mínu mati. Af því að hún lagði svo mikla vinnu í undirbúninginn þurfti ekki að skoða málið hér margoft og velta því fyrir sér. Það lá bara fyrir eins og opin bók, má segja.

Ég vil líka draga það fram hérna að verði þessar bólusetningar teknar upp, sem á að gera samkvæmt vilja Alþingis sem verður ljós á morgun, er það ekki 100% vörn. Það er talið að hægt sé með þessu að koma í veg fyrir 67% af leghálskrabbameinum og um 53% af alvarlegum forstigsbreytingum. Það er sem sagt ekki 100% vörn, því miður.

Það sama á við um pneumókokkasýkingar barna, það er ekki 100% vörn gegn eyrnabólgum eða heilahimnubólgu eða blóðsýkingum, það er mikil vörn en ekki 100%. Þess vegna er óheyrilega mikilvægt að undirstrika það sem kemur reyndar fram í nefndarálitinu að vegna þess að ungar konur leita ekki í nógu miklum mæli til Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins þarf áfram að hafa mikinn áróður fyrir því að konur fari í leitina. Ef konur draga úr því að fara í leitina tapast ávinningurinn sem við náum með bólusetningunum og þetta þarf að passa. Það er ekki gott að hefja bólusetningar og græða þannig, ef svo má segja, ef við töpum því út hinum megin af því að konurnar fara ekki í leitarstöðina. Konur verða því að fara í leitarstöðina og fara líka í bólusetningarnar, þessar ungu konur sem fá boð um það. Ég vil undirstrika það alveg sérstaklega.

Við leggjum svo til ákveðna forgangsröðun, þ.e. fyrst að hefja bólusetningar á börnum og síðan HPV-bólusetninguna. Og það er ótímasett, eins og fram kom hjá hv. formanni heilbrigðisnefndar, Þuríði Backman. Það er ótímasett, það kemur sem sagt næst á eftir, en við erum að undirstrika þessa forgangsröðun.