138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:07]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Virðulegi forseti. Umfangsmikil verkefni í fjármálum ríkisins blasa við okkur, 40–50 milljarða kr. gat næsta árs sem þarf að brúa, annars sliga vaxtagreiðslur fjárhag ríkisins. Ýmsar hugmyndir hafa komið upp um hvernig hægt sé að taka á þessum vanda, margar góðar eins og að minnka yfirbyggingu innan Stjórnarráðsins. Ég hef lagt á það mikla áherslu að horfa beri til þess að skera niður í útgjöldum ríkissjóðs, t.d. með sameiningu eða niðurlagningu stofnana eða ráðuneyta. Ég er sömuleiðis andstæðingur frekari skattahækkana á heimili og fyrirtæki, en eigi að horfa til skattahækkana á að horfa til auðlindaskatts þar sem notendur greiða skatt fyrir afnot af auðlindum lands og sjávar.

Mig langar hins vegar að velta upp nýrri hugmynd að skattlagningu, sérstökum tekjuskatti á fjármálastofnanir, þ.e. bankaskatti. Árið 2009 var hagnaður Arions banka, Landsbanka og Íslandsbanka samtals 51 milljarður kr. og arðsemi eigin fjár allt að 30%. Fyrstu þrjá mánuði ársins var Landsbankinn svo með 8 milljarða kr. hagnað, þ.e. rúmlega 90 millj. kr. á dag. Þetta er á tímum þar sem stjórnvöld eiga í hatrammri baráttu við bankastofnanir um að þær komi til móts við skuldara um frekari aðstoð við skuldug heimili og þetta er á þeim tímum sem við horfum fram á niðurskurð í þjónustu við aldraða og fatlaða, skerðingu á bótum og skerðingu á þjónustu og, kannski hvað alvarlegast að mati sumra, skerðingu á þjónustu við ráðherra.

Frá árinu 2003 höfum við Íslendingar einkavætt hagnað fjármálastofnana en ríkisvætt tap þeirra. Ég legg til að þessari þróun verði snúið við og lýsi mig fylgjandi innleiðingu bankaskatts á þær fjármálastofnanir sem sýna svo umtalsverðan hagnað. Þær verða að leggja sitt af mörkum við endurreisnina og að hjálpa okkur að fylla upp í fjárlagagatið. Við erum komin að sársaukamörkum í niðurskurði, þá sérstaklega ef menn ætla að ríghalda í ráðherrastóla.