138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það má hæstv. forsætisráðherra eiga að hún kann að tukta til liðið sitt þegar hún telur sérstakt tilefni til þess.

Á sjómannadaginn flutti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ræðu og sagði, með leyfi forseta:

„Þau áform að leggja niður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið við núverandi aðstæður eru ekki hyggileg og reyndar fráleit. Tek ég þar með eindregið undir áskoranir og varnaðarorð hagsmunasamtaka í sjávarútvegi og landbúnaði.“

Síðan gerist það þremur sólarhringum síðar að hæstv. forsætisráðherra leggur fram frumvarp þar sem gengið er í berhögg við þennan vilja hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Það er ekki í fyrsta skipti, þann 16. janúar á þessu ári var flokksráðsfundur VG haldinn og ályktað gegn sameiningarhugmyndum í ráðuneytum. Tveimur eða þremur dögum seinna kom hæstv. forsætisráðherra fram og minnti á að það sem er í stjórnarsáttmálanum hafi ríkisstjórnin skyldur til að framkvæma, báðir flokkarnir. Hnífnum var snúið í sárinu.

Nú liggur sem sagt fyrir að á Alþingi er búið að leggja fram þetta stjórnarfrumvarp — eða er það stjórnarfrumvarp? Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nefnilega greint frá því að hann muni greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi. Baráttunni er greinilega ekki lokið af hans hálfu.

Nú vaknar líka spurningin: Með hvaða hætti var þetta frumvarp afgreitt í gegnum stjórnarflokkana? Við vitum að eðli stjórnarfrumvarpa er þannig að það þarf að styðjast við þinglegan meiri hluta og þess vegna þarf að gæta þess að þeir stjórnmálaflokkar sem standa að stjórnarsamstarfinu hafi lýst skoðun sinni í þessum efnum.

Ég beini þess vegna þeirri fyrirspurn til hv. formanns þingflokks VG: Liggur fyrir hvort það er þingmeirihluti fyrir þessu máli? Hver er afstaða þingflokks VG til málsins? Afstaða eins þingmanns úr þessum þingflokki liggur fyrir, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Jóns Bjarnasonar. Hann er á móti málinu. Gildir svo um fleiri? Hver er afstaða (Forseti hringir.) þingflokks VG?