138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:11]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Fyrst er það að segja að það liggur fyrir að hér er um stjórnarfrumvarp að ræða. Eins og hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni er kunnugt um gilda ákveðnar reglur um framlagningu stjórnarfrumvarpa. Þau þurfa að fást samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna. Það á við um þetta frumvarp, það var samþykkt í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að heimila framlagningu þess sem stjórnarfrumvarps. (Gripið fram í: Einróma?) Það liggur líka fyrir að skiptar skoðanir eru um ákveðin efni þessa frumvarps. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði grein fyrir því í ríkisstjórn að hann væri ekki sammála einu tilteknu atriði, þ.e. því er lýtur að sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og iðnaðarráðuneytis, ekki öðrum þáttum. Hinar skiptu skoðanir um þetta mál eru reifaðar í greinargerð með frumvarpinu þannig að þær eiga ekki að koma neinum á óvart.

Hv. þingmaður vísaði í flokksráðsfund Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs 15.–16. janúar 2010 en hafði ekki rétt eftir. Þar er skorað á þingflokk VG „að áform um endurskipulagningu Stjórnarráðsins verði endurskoðuð í ljósi breyttra aðstæðna og yfirfarin áður en frekari skref verða tekin“ eins og segir í samþykktinni orðrétt. Þá er að vísa til þess að landsfundur flokksins sem fer með æðsta vald í málefnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur markað stefnu í þessu efni þar sem lögð er áhersla á að efla umhverfisráðuneyti og stofnanir þess og um leið að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Það er grundvallarstefnan.

Flokksráðið vildi að þessi áform yrðu yfirfarin. Það er gerð prýðileg grein fyrir þeim sjónarmiðum í greinargerð með þessu frumvarpi. Við viljum setja þetta í vandað undirbúningsferli. Það er hugmyndin eins og henni er lýst í greinargerðinni og það er ásetningur ríkisstjórnarinnar að til þessa verks verði vandað í hvívetna, efnt til þverpólitísks samráðs sem og samráðs við hagsmunaaðila. Að mínu viti er fullsnemmt að lýsa yfir (Forseti hringir.) afstöðu í atkvæðagreiðslu sem fer fram kannski eftir einhverja mánuði eftir víðtækt samráð (Forseti hringir.) þegar málið hefur hugsanlega tekið breytingum.