138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:27]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það fer að verða daglegur viðburður að samfylkingarmenn og sjálfstæðismenn ræði mikið um styrkjamál sín á milli í ræðustóli Alþingis. Ég held að tíma okkar sé betur varið í önnur mál og kom þess vegna upp til að vekja athygli á því að á vettvangi þingsins ræðum við núna og vinnum heilmikla vinnu er snertir skuldamál heimilanna. Það er ánægjulegt að geta sagt frá því að í gangi er þverpólitísk vinna um m.a. bílalán og fleira er snertir skuldug heimili. Þetta er það sem við ættum að einbeita okkur að á síðustu dögum þingsins, að koma málum þannig fyrir að fólk geti farið að bera höfuðið hátt á Íslandi. Reyndar höfum við í Framsóknarflokknum talað í á annað ár fyrir tillögum í þeim efnum en nú er fagnaðarefni að við erum að ná saman þvert á flokka um ákveðnar, vonandi segi ég, aðgerðir til handa skuldugum heimilum og vonandi atvinnulífinu einnig.

Mér finnst mikilvægt að það komi líka fram í orðræðunni að við getum átt gott samstarf í þinginu, að við komum okkur upp úr þeim hernaði sem virðist vera hér, vegna þess að við stefnum öll að sama marki, þ.e. að koma okkur upp úr þeim djúpa skurði sem þjóðin er komin ofan í. Það gerum við með samvinnu í orði og líka á borði. Við í Framsóknarflokknum ítrekum að við erum til viðræðu um allar lausnir og leiðir til að koma okkur út úr þessum vanda. Ég hvet hv. þingmenn til að tala með uppbyggilegri hætti og í raun og veru um þau mál sem skipta okkur öll máli. Sú ásýnd sem blasir við þjóðinni dag eftir dag í ræðum þingmanna er hvorki okkur né þjóðinni til framdráttar. Við eigum að reyna að tala um þá hluti sem sameina okkur og við eigum að vinna saman að því. Við í Framsóknarflokknum stefnum að því og ég vona að fulltrúar allra þingflokka á Alþingi séu okkur sammála í þeim efnum. Við skulum halda áfram uppbyggilegri umræðu og reyna að leysa þau vandamál sem blasa við okkur öllum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)