138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:32]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við ummæli síðasta ræðumanns, þau dæma sig sjálf. Mig langar hins vegar til að þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni fyrir að taka hér upp umræður um persónukjör. Nú sjáum við svart á hvítu í þinginu, og þjóðin öll, að lýðræði ríkisstjórnarflokkanna er einungis í orði en ekki á borði. Það er enginn vilji hjá ríkisstjórnarflokkunum til að koma í gegnum þingið þeim miklu lýðræðisumbótum sem eru í frumvarpi um persónukjör samhliða stjórnlagaþingsfrumvarpinu. Ég er farin að halda að þetta sé hálfgert gervifrumvarp. Þetta er sett fram í þeim tilgangi einum að geta krossað við 100-mála-lista ríkisstjórnarinnar.

Virðulegi forseti. Það er kallað eftir lýðræðisumbótum og það er afar einkennilegt að sitja í allsherjarnefnd og verða vitni að því að sjálfir ríkisstjórnarflokkarnir hafna því að þetta mál fari á dagskrá. Hv. þm. Róbert Marshall sagði að sveitarstjórnirnar hefðu haft svo mikið á móti þessu frumvarpi. Þegar löggjafinn setur lög sem snúa að kosningum, er þá ekki rétt að þau lög verði prufukeyrð af þingmönnum og í alþingiskosningum? Þess vegna segi ég að lýðræðisumbætur ríkisstjórnarflokkanna séu í orði en ekki á borði. Þeir vilja hafa puttana í lýðræðinu, hafa síðasta orðið eins og kemur fram í stjórnlagaþingsfrumvarpinu. (BirgJ: Heyr, heyr.) Ég er eiginlega orðin alveg bit á þessum vinnubrögðum.