138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

störf þingsins.

[12:34]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (ber af sér sakir):

Herra forseti. Ég ætla að svara hérna þessum makalausu yfirlýsingum og aðdróttunum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar um meint tengsl mín við lögfræðistofuna Mishcon de Reya sem hæstv. ríkisstjórn réði til starfa fyrir sig. Hann lætur að því liggja að ég hafi síðar, vegna aðkomu þeirrar stofu að vinnu fyrir þingið, haft einhverja aðkomu að því máli og jafnvel þegið greiðslur frá lögmannsstofunni.

Það er algjörlega rangt. Þetta eru svívirðilegar ávirðingar sem hv. þingmaður kemur með á hendur mér. Ég hef engin tengsl við þessa stofu. Ég samdi ekki við hana um að hún ynni fyrir Alþingi. Það gerðu formaður fjárlaganefndar og skrifstofa Alþingis. Það gerði ég ekki og það gerði Sjálfstæðisflokkurinn ekki. Ég skil ekki af hverju íslensk stjórnmál þurfa að vera komin niður (Forseti hringir.) á það plan sem hv. þm. Björn Valur Gíslason (Forseti hringir.) hefur dregið þau niður á. Það er honum (Forseti hringir.) og flokki hans til skammar að bera þessar sakir á mig eða (Forseti hringir.) aðra þingmenn hér og hann ætti að skammast sín og biðjast afsökunar. [Kliður í þingsal.]