138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:41]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég tel nauðsynlegt að rifja aðeins upp aðdraganda þess að lögfræðistofan Mishcon de Reya var ráðin hér til starfa fyrst hv. þm. Björn Valur Gíslason byrjar á því. Þannig er mál með vexti að um það var samið á milli stjórnarandstöðu og stjórnarflokkanna að fengin yrði þessi stofa enda reyndust skilmálar hennar og taxtar ekki hærri en annarra. Við höfðum gert ráð fyrir því að þessi vinna mundi kosta í kringum 2 millj. kr., það er alveg rétt að kostnaðurinn fór langt fram úr því sem höfðum gert ráð fyrir þegar við kölluðum lögfræðistofuna til vinnu. Það breytir ekki hinu, að við þingmenn höfum ekkert með það að gera um hvað er samið við stofuna. Það er skrifstofu þingsins að gæta þess í upphafi að verkið verði ekki svo umfangsmikið að það fari langt út fyrir það sem menn höfðu gert ráð fyrir. (Forseti hringir.)

Ég mótmæli því hins vegar að vinnan hafi verið gagnslaus (Forseti hringir.) og eins því að stofan sé ekki góð vegna þess að þetta er stofan sem ríkisstjórnin sjálf hafði kallað til verka. Og vinnan nýttist sannarlega.