138. löggjafarþing — 135. fundur,  10. júní 2010.

orð þingmanns í umræðu um störf þingsins.

[12:46]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við viljum vera breytingin sem við viljum standa fyrir en á sama tíma fordæmir hv. þingmaður ekki þau ummæli sem hér voru höfð og eiga sér eflaust ekki fordæmi í sögu Alþingis, svo alvarleg eru þau. Hér hefur verið sett ofan í við menn fyrir að nota orð eins og „skemmdarverk“ að gefnu tilefni. Það er makalaust að fylgjast með þessari umræðu og þeim fordæmalausu svívirðingum og ávirðingum sem hér fóru fram og því að þingmaður úr sama þingflokki, hæstv. forseti, úr sama þingflokki og umræddur þingmaður skuli ekki víta hann og að enginn þingmaður úr stjórnarliðinu skuli koma upp í pontu og ýta undir það að svona ætlum við ekki að starfa. Með öðrum orðum, stjórnarflokkarnir eru að leggja blessun sína yfir þessi vinnubrögð. (Gripið fram í: Hvaða vinnubrögð?) Ja, það er ekki hægt að skilja það öðruvísi á meðan enginn þeirra sér ástæðu til að koma upp til að taka undir (Forseti hringir.) þá gagnrýni sem full ástæða er til að viðhafa á þessi (Forseti hringir.) ummæli hv. þm. Björns Vals Gíslasonar.